Home Fréttir Í fréttum Fá framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið en búast við kæru

Fá framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið en búast við kæru

137
0
Mynd: RÚV grafík - RÚV

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Þ-H leið um Teigsskóg í Gufudalssveit. Samningar hafa ekki nást við alla landeigendur og líklegt er að framkvæmdaleyfið verði kært.
Á vef BB.is kemur fram að sveitarstjórn hreppsins hafi samþykkt að veita leyfið á fundi sínum í gær. Þar hafi þrír sveitarstjórnarfulltrúar kosið með veitingu leyfis, einn setið hjá og einn greitt atkvæði á móti.

<>

Leiðin er um 20 kílómetrar og felur í sér þverun þriggja fjarða og lagningu vegar um birkiskóginn Teigsskóg við Þorskafjörð. Mikið hefur verið deilt um Þ-H leiðina vegna neikvæðra umhverfisáhrifa.

Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar, segir að enn hafi ekki nást samningar við alla landeigendur.

„Það er búið að skrifa undir nokkra, en við vitum af mikilli andstöðu hjá ákveðnum landeigendum við þessa framkvæmd. Við erum búnir að vera í samningaviðræðum við alla landeigendur og náist ekki samningar þá munum við fara fram á eignarnám,“ segir hann.

Framkvæmdaleyfið er kæranlegt til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Magnús telur mjög líklegt að leyfið verði kært og að erfitt sé að sjá fyrir um framgang mála ef af því verður. Hann vonar þó að framkvæmdir geti hafist að einhverju leyti í sumar.

„Við höfum sagt að við gætum byrjað á hlutum af þessari framkvæmd. Við teljum okkur hafa náð samkomulagi við ákveðna landeigendur og ef framkvæmdaleyfið stendur þá myndum við reyna að bjóða þetta út núna í vor og hefja einhverjar framkvæmdir í sumar,“ segir Magnús.

Hann undirstrikar að ástand Vestfjarðarvegar í Reykhólahreppi sé mjög bágt og standist ekki kröfur um umferðaröryggi. Brýnt sé því að hefja framkvæmdir sem fyrst.

Heimild: Ruv.is