Home Fréttir Í fréttum Aftakaveður á Kjalarnesi og töluvert tjón

Aftakaveður á Kjalarnesi og töluvert tjón

147
0
Myndin var tekin af húsinu við Jörfagrund í morgun. Mynd: Ásta Jónína Ingvarsdóttir - aðsend mynd
Aftakaveður hefur verið á Kjalarnesi í morgun og björgunarsveitin Kjölur hefur farið í fjölda útkalla. „Þetta eru mestmegnis foktjón; það eru þakplötur, þakkantar að fjúka, rúður að brotna og svo svona minniháttar eins og girðingar og húdd á bílum,“ segir Anna Filbert, björgunarsveitarmaður í Kili.
Vélarhlífar hafa fokið upp á bílum og svo fokið í burtu. Í ljósi alls þessa er stórhættulegt að vera á ferli á Kjalarnesi.

„Þetta er mannskaðaveður, það er ekki stætt úti og svo eru hlutir hérna að fjúka,“ segir Anna. Hluti af þaki á fjölbýlishúsi við Jörfagrund fauk af í morgun.

<>

Búið er að gera ráðstafnir þannig að þaðan fýkur ekki lengur en hluti þaksins blaktir enn. Anna kveðst vona að það haldi.

Ásta Jónína Ingvarsdóttir býr nálægt fjölbýlishúsinu og hefur hún séð rúður brotnar í tveimur bílum í götunni. Þá brotnaði stofugluggi í næsta húsi við Ástu.

Anna segir að langt sé síðan svo mikið tjón hafi orðið í veðurofsa á Kjalarnesi. „Við höfum áður lent í veðurhæð í kringum 60 metra á sekúndu en þá hefur kannski verið minna tjón og staðið styttra yfir en nú er töluvert tjón og örugglega meira eftir sem á eftir að koma í ljós.“

Heimild: Ruv.is