Home Fréttir Í fréttum 472 milljónir þarf til að klára menningarsal Suðurlands

472 milljónir þarf til að klára menningarsal Suðurlands

121
0
Selfoss og Ölfusá. Á myndinni má sjá hús við Jórutún. Myndin er úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson
Heildarkostnaður við að klára framkvæmdir í menningarsal Suðurlands á Selfossi er áætlaður 472 milljónir króna. Sveitarfélagið Árborg telur raunhæft að um sextíu prósent af þeim framkvæmdakostnaði komi frá ríkinu eða 283 milljónir. Þannig yrði menningarsalurinn fullbúinn árið 2020 eða 2021.

Árborg myndi á móti leggja til 189 milljónir ásamt salnum eins og hann er í dag en salurinn er metinn á um 700 til 800 milljónir.  Samtals myndi Árborg þannig leggja til nærri einum milljarði króna.

<>

Þetta kemur fram í umsögn Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Árborgar, við þingsályktunartillögu þingmanna Suðurkjördæmis þar sem skorað er á menntamálaráðherra að ljúka gerð menningarsalarins.

Menningarsalurinn stendur enn óinnréttaður en fullbúinn á hann að geta tekið 270 manns í sæti. Þá er í salnum stórt svið sem bæjarstjórinn segir eitt það stærsta á Íslandi og síðan gryfja fyrir hljómsveit.

Gísli Halldór segir í umsögninni að vegna aðstöðuleysis hafi menningarstofnanir ríkisins á borð við Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands ekki geta sinnt hlutverki sínu á svæðinu og þurft að sneiða hjá Suðurlandi.

Núverandi eigendur Hótel Selfoss hafi lýst yfir áhuga á að taka rekstur salarins að sér. Þá bendir hann á að sveitarfélagið hafi þegar kostað miklu til salarins en eftir ýmsar vendingar hafi Árborg keypt menningarsalinn aftur fyrir nokkrum árum.

Byrjað var að byggja menningarsalinn árið 1972. Húsið sjálft var ekki vígt fyrr en 14 árum seinna og þá var menningarsalurinn eingöngu fokheldur.

Heimild: Ruv.is