Home Fréttir Í fréttum Skipu­lags­full­trúi vísar and­ófi íbúa á Berg­staða­stræti á bug

Skipu­lags­full­trúi vísar and­ófi íbúa á Berg­staða­stræti á bug

194
0
Bergstaðastræti 29 samkvæmt uppdrætti. Á myndinni hefur græna húsið verið fært til í lóðinni. Mynd/Gláma Kím

Ekki er tekið til­lit til at­huga­semda fjöl­margra hús­eig­enda við Berg­staða­stræti vegna á­forma um byggingu átta í­búða húss.

<>

Í­búar hafa á­hyggjur af aukinni um­ferð, raski á fram­kvæmda­tímanum, skugga­varpi og telja að húsið falli ekki að götu­myndinni. Skipu­lags­full­trúi mælir með á­formin verði sam­þykkt.

Umdeild nýbygging á Bergstaðastræti 27 virðist munu fá brautargengi hjá Reykjavíkurborg þótt áformunum sé andæft kröftuglega af húseigendum í götunni.

Væntanlegar framkvæmdir fela í sér að timburhús á Bergstaðastræti 27 verður fært á autt svæði sunnar á lóðinni og mjótt steinhús þar norðan við rifið. Síðan verður byggt fjögurra hæða steinhús með átta íbúðum.

Við meðferð málsins bárust fjölmargar athugasemdir frá nágrönnum.

Lúta þær meðal annars að því að nýja byggingin muni ekki falla að götumyndinni, viðkvæm hús muni geta skaddast vegna þess að sprengja þurfi í klöpp og að mörg bílastæði hverfi á sama tíma og íbúðum í götunni fjölgi.

Þá benda íbúar handan götunnar sérstaklega á að skuggavarp hjá þeim muni aukast verulega.

Farið er yfir athugasemdir nágrannanna í umsögn skipulagsfulltrúa. Þar er meðal annars bent á að íbúðum í nýja fjölbýlishúsinu hafi verið fækkað úr tíu í átta frá því málið fór í grenndarkynningu.

„Það er faglegt mat skipulagsfulltrúa að uppbygging á lóðinni sé til bóta fyrir götumyndina,“ segir í umsögninni.

Skilningur er í umsögninni gagnvart áhyggjum af tímalengd framkvæmdanna. Varðandi hugsanlegt tjón verði að skrá ábyrgðaraðila á framkvæmdinni og verktrygging að vera til staðar.

„Eðlilega fylgjast lóðarhafar nærliggjandi húsa með og leggja sjálfir fram kröfu gegn framkvæmdaraðila um bótarétt telji þeir ástæðu til.“

„Samkvæmt ákvæðum gildandi aðalskipulags geta íbúar Þingholtanna, frekar en aðrir borgarbúar, ekki gengið að bílastæði vísu undir einkabílinn í borgarlandi,“ segir skipulagsfulltrúinn um áhyggjur af vandamálum vegna aukins fjölda bíla í götunni og bætir við:

„Ekki er hægt að fullyrða í ljósi aukinnar umhverfisvitundar og aukinnar meðvitundar borgaranna á fjölbreyttum lífsmáta án einkabíls í borginni að væntanlegir íbúar á lóðinni muni allir sækjast eftir að eiga einkabíl.“

Í sumum athugasemdum er lýst áhyggjum af því að nýju íbúðirnar verði leigðar ferðamönnum í skammtímaleigu.

Skipulagsfulltrúinn segir lóðarhafa Bergstaðastrætis 27 hafa, líkt og aðrir lóðarhafar í götunni, eða annars staðar í borginni við
sambærilegar götur, fullan rétt á að nýta fasteign sína undir gististarfsemi.

„Hvorki skipulags- né byggingarfulltrúi hefur heimild né ástæðu til að draga úr rétti lóðarhafa í þá veru að banna skammtímaleigu við veitingu byggingarleyfis.“

Ekki er hljómgrunnur fyrir rökum um aukið skuggavarp í umsögn skipulagsfulltrúa. „Aukning á skuggavarpi er nokkur á jafndægri en innan marka sem telja megi eðlilegt svo lengi borg eigi að geta vaxið og þróast með tímanum.“

Skipulagsfulltrúi leggur til að málið verði samþykkt en þó að undangenginni ítarlegri húsakönnun á lóðinni.

Heimild: Frettabladid.is