Home Fréttir Í fréttum Rétti tíminn fyrir fjárfestingar í innviðum

Rétti tíminn fyrir fjárfestingar í innviðum

116
0
Sigurður Hannesson Mynd: SI.is

Nú er svo sannarlega rétti tíminn fyrir fjárfestingar í innviðum því við erum akkúrat að sjá það sem við töluðum um 2017 að það myndi hægja á í hagkerfinu, hagkerfið mundi kólna og þá yrði til einhver slaki sem þá væri upplagt að nýta.

<>

Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni um helgina. „Þetta snýst líka um samspil peningastefnunnar og opinberra fjármála og að hið opinbera komi með innspýtingu þegar hægir á.

Svo sannarlega er rétti tíminn núna. Við erum hins vegar að sjá sérstakt ástand í hagkerfinu sem er nýtt. Við þekkjum það náttúrulega að laun hér eru há í alþjóðlegum samanburði, skattar eru hærri en annars staðar, sveiflur eru meiri og raunvextir eru hærri hér, þannig að allt þetta hefur áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.

Þannig að það dregur úr samkeppnishæfni ekki síst hjá þeim fyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum eða eru á innanlandsmarkaðinum að keppa við innfluttar vörur. Þannig að þetta hefur sín áhrif.“

Krónan ekki lengur sveiflujafnari
Sigurður segir það áhugavert og hafi ekki gerst áður að innbyggður sveiflujafnari í hagkerfinu, krónan, sé hætt að virka, allavega virki ekki núna eins og hún hefur gert.

„Krónan hefur leiðrétt samkeppnishæfnina, hækkað eða lækkað, en það gerist ekki núna. Það getur verið of snemmt að fullyrða um þetta eða draga af því víðtækar ályktanir en það gæti verið vegna þess að það eru fleiri stoðir í útflutningnum, ferðaþjónustan hefur vaxið á síðustu árum og líka vegna þess hversu vel tókst til með efnahagslega endurreisn. Við sjáum það til dæmis að skuldir heimilanna eru lægri en hafa verið lengi, skuldir ríkissjóðs eru mjög lágar og nettóskuldirnar eru um 20% af landsframleiðslu, fyrirtæki skulda minna en áður og allt í einu þá eigum við meiri eignir erlendis sem þjóð en við skuldum.

Heimurinn skuldar okkur en við höfum skuldað heiminum. En allt treystir þetta stoðirnar sem gerir það að verkum að þessi kólnun virðist frekar koma fram í gegnum vinnumarkaðinn. Núna eru um 8.000 manns án atvinnu.“

Hvað á að drífa vöxt framtíðar
Sigurður segir þetta vera grundvallarbreytingu frá því sem verið hefur og sé ný staða að takast á við minnkandi eftirspurn með hátt raungengi. „Þetta er staða sem þarf að skoða.

Eins og við þekkjum þá er fjárfesting í dag hagvöxtur á morgun. Við sjáum það á sama tíma og Seðlabankinn beitir peningastefnu þannig að vextir lækka til þess að örva eftirspurn og fjárfestingu þá skilar það sér ekki nema að takmörkuðu leyti til heimila og fyrirtækja.

Fyrirtækin hafa ekki notið þess nema að litlu leyti þeirra 150 punkta vaxtalækkunar bankans. Ýmislegt auðvitað skýrir það en grundvallarspurningin á þessum tímapunkti hlýtur að vera hvað er það sem á að drífa vöxt framtíðar hérna hjá okkur.“

Þarf atvinnustefnu til að auka samkeppnishæfni
Hann segir Ísland vera auðlindadrifið hagkerfi og við getum ekki gengið endalaust á auðlindirnar. „Þannig að núna hljótum við að þurfa að fara að líta í aðrar áttir. Svarið við þessu er eitthvað sem við höfum talað um síðan 2018 sem er atvinnustefna. Atvinnustefna er nokkurs konar umbætur sem gera almenn skilyrði betri vegna þess að eins og við þekkjum þá rísa öll skip á flóðinu.

Við sjáum það til dæmis að önnur ríki hafa farið þessa leið, t.d. hefur Bretland mótað atvinnustefnu, industrial strategy, til þess að takast á við breytingar hjá þeim og Evrópusambandið er að gefa út atvinnustefnu núna í vor til þess einmitt að auka samkeppnishæfni álfunnar í samkeppni við aðallega Bandaríkin annars vegar og Kína hins vegar.“

Menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi vega þyngst
Sigurður segir þetta vera stóra myndin og þarna séu kannski fjögur atriði sem að vega þyngst; menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. „Það er menntun þannig að það sé verið að leiða saman færni mannauðsins við þarfir atvinnulífsins.

Við sjáum það í stóru myndinni hérna hjá okkur ef við horfum til dæmis á fólksflutninga til og frá landinu að þá eru háskólamenntaðir Íslendingar að flytja út en iðnmenntaðir Evrópubúar að flytja hingað. Af hverju er það? Vegna þess að við sem þjóð erum ekki að mennta nægilega marga í iðnnámi eða starfsnámi. Annað eru tæknigreinar á háskólastigi, þar höfum við ekki verið að standa okkur vel.

Ráðherrann er auðvitað mjög áhugasöm um þetta og ég vænti þess að sjá einhverjar aðgerðir frá henni á næstu vikum hvað þetta varðar. Innviðirnir, þeir auðvitað þurfa að vera í góðu ástandi til að uppfylla þarfir almennings og atvinnulífs. Nýsköpunin, umgjörð og hvatar í nýsköpunarumhverfinu þurfa að vera með því besta sem við þekkjum í heiminum og við sjáum það að ríkisstjórnin lagði mikla áherslu á nýsköpun í stjórnarsáttmálanum og hefur fylgt því eftir með mótun stefnu.

Ráðherra bæði iðnaðar og fjármála hafa verið mjög áhugasöm um þetta og kynnt aðgerðir. En nýsköpun snýst ekki bara um að fyrirtæki séu samkeppnishæfari fyrir samkeppni á markaði heldur snýst þetta líka um að finna lausnir á samfélagslega mikilvægum áskorunum. Loftslagmálin eru gott dæmi um það.

Þar þurfum við að gera betur í starfsumhverfi fyrirtækja þannig að regluverkið hamli ekki um of, að það sé stöðugleiki, að það sé skilvirkni og hagkvæmni, skattumhverfi þar á meðal. Stafrænt Ísland er ágætt dæmi um umbætur á þessu sviði.“

Heildstæð stefna rauður þráður í annarri stefnumótun
Hann segir það vanti í raun heildstæða stefnu um þetta sem yrði þá nokkurs konar rauður þráður inn í annarri stefnumótun. „Tökum sem dæmi orkustefnu sem nú er verið að móta, hvernig á að móta orkustefnu án þess að vera með atvinnustefnu?

Orkan verður ekki til fyrir sjálfan sig heldur ætlum við að nota hana í eitthvað. En það þarf þá að nýta ríkisfjármálin og peningamálin til að vinna á móti niðursveiflunni. Eins og ég kom inn á áðan þá er staðan góð, ríkissjóður skuldar lítið og það er ekkert að því í þessu ástandi að reka ríkissjóð með halla.“

Metnaðarfull samgönguáætlun
Sigurður segir að unnin hafi verið metnaðarfull samgönguáætlun til 5-15 ára þar sem búið sé að finna verkefni sem talin er þörf á að fara í á næstu árum. „Ég geri ráð fyrir því að undirbúningar að þeim sé þá langt kominn og einhver þeirra séu tilbúin nú þegar þannig að ég hugsa að tíminn hafi verið ágætlega nýttur.

Það sama á væntanlega við um byggingar hins opinbera og fleira. Þannig að það er þetta sem ég átti við að þegar aðstæðurnar kæmu þá værum við tilbúin og farið væri í að auka við fjárfestinguna því hún hefur verið of lítil.“

Nota aðstæður í hagkerfinu til að fara í framkvæmdir við opinberar byggingar
Sigurður segir gríðarlega þörf í samgöngum og vegakerfinu og væri hægt að flýta framkvæmdum í planinu sem kemur fram í samgönguáætluninni. „Annað eru byggingar á vegum hins opinbera. Það má fagna því til dæmis að Hús íslenskunnar skuli nú vera að rísa. Það er gott að það er verið að nota þessar aðstæður í hagkerfinu til að fara í slíkar framkvæmdir sem hafa setið á hakanum lengi. Það sama á við um uppbygginguna á spítalanum við Hringbraut, uppbygging sem hefur staðið til lengi.

Þannig að ég hugsa að það séu fleiri dæmi um þetta, til dæmis í menntakerfinu, menntamálaráðherra skrifaði nú um þetta í vikunni eða þar síðustu viku um framkvæmdir sem voru nauðsynlegar. Eins og ég segi, byggingar og samgöngur, eru rakin dæmi þar sem hið opinbera kemur að fjárfestingunni.

Annað sem við sjáum eru framkvæmdir með samvinnuleið eða PPP þar sem að einkaaðilar og opinberir koma saman og vinna að verkefnum. Það er mjög ánægjulegt að sjá það að samgönguráðherra hefur kynnt drög að frumvarpi um það, þar sem hafa verið tilgreind sex verkefni sem einkaaðilar geta þá komið að, sem er eins og tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú við Ölfusá og svo framvegis.

Allt eru þetta dæmi hvernig væri þá hægt að hvetja einkaaðila til að koma að slíkum verkefnum til þess að hraða framkvæmdum.“ Hann nefndi fleiri dæmi, líkt og flutningskerfi raforku þar sem er þörf á uppbyggingu og ofanflóðavarnir.

Ekkert að gerast varðandi innanlandsflugvellina
Sigurður segir að horfur í vegakerfi hafi breyst af því að samgönguáætlun geri ráð fyrir miklu meiri fjárfestingu þar heldur en fyrri áætlun, þannig að það lítur ágætlega út. „En ég er ekki viss um, því miður, að það sé neitt að gerast varðandi innanlandsflugvellina. Ég hugsa að þeir séu ennþá á rauðu þegar horft er fram í tímann.

Þar er ekki verið að skipuleggja neitt í takt við þarfir. Það hlýtur að vera áhyggjuefni bæði fyrir ferðaþjónustuna og eins fyrir landsbyggðina.“

Enn svigrúm til að lækka vexti
Sigurður segir stýrivexti hér 3% sem sé hærra en víða annars staðar. „Ef maður hugsar hvert fara peningarnir. Ef þeir fara ekki í innlán í bönkunum þannig að bankarnir geti þá miðlað þeim í hagkerfið eins og þeir gera í gegnum útlán, þá hljóta þeir að leita í einhverjar aðrar fjárfestingar sem geta verið skuldabréf sem er þá líka lánveiting til fyrirtækja eða hlutabréf sem fjármagnar atvinnulífið.

Nú ef fjárfestar telja ekki tækifæri hér á landi þá auðvitað leitar fjármagnið út og þar er staðan eins og þú bendir réttilega á eiginlega verri hvað þetta varðar en hér. Þess vegna hef ég kannski ekki það miklar áhyggjur af þessari sviðsmynd sem dregin er upp. Ég held að það sé ennþá svigrúm til þess að lækka vexti. Við sjáum að þó Seðlabankinn hafi lækkað vexti um eitt og hálft prósent þá hefur það ekki skilað sér nema að litlu leyti til fyrirtækjanna.

Það er ennþá svigrúm. Þar eru auðvitað líka hlutir sem þarf að horfa á sem er ekki bara vextirnir heldur umgjörð fjármálafyrirtækjanna. Þá er ég að vísa í tvennt öðru fremur, annars vegar bankaskatturinn og hins vegar þessar kröfur um eigið fé. Þetta er eitthvað sem stjórnvöld hafa í hendi sér, bæði bankaskatturinn og kröfur um eiginfjárhlutfallið.“

Ríkið eigi ekki tvo banka
Hann segir að vonandi sé framtíðarsýnin sú að ríkið eigi ekki tvo banka heldur einn og ef ríkið vilji koma öðru bankanum í verð þá hljóti að vera liður í því að lækka bankaskattinn því virði mundi aukast og ríkið ætti að fá meira fyrir bankann. „Ef ríkið vill koma þeim banka í verð þá hlýtur þetta að vera liður í því.“ Sigurður segir mikilvægt að skýra þurfi mynd um framtíðarumgjörð fjármalafyrirtækja allavega gagnvart fjárfestum.

Hugsa um heildarmyndina en ekki eingöngu afmarkaða þætti
Þegar Kristján spyr hvort það sé einhver umræða um atvinnustefnu segir Sigurður það kannski ekki vera mikið á yfirborðinu. „En mér finnst jarðvegurinn vera frjór. Fólk áttar sig alltaf á þessu svona meira og meira með tímanum hvað það skiptir miklu máli að hugsa hlutina á heildstæðan hátt.

Ekki bara að skoða afmarkaða þætti heldur líka velta fyrir sér heildarmyndinni. Þó það sé langt í segjum árið 2050 þá er ágætt að fara að huga að hlutunum vegna þess að við vitum að það tekur tíma að vinna að umbótum. Hvert skref skiptir máli og það eru oft þessi litlu skref sem eru þýðingarmikil og leiða til stórra stökka á endanum.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð.

Heimild: SI.is