Home Fréttir Í fréttum Missa lykil­starfs­fólk til ríkisins

Missa lykil­starfs­fólk til ríkisins

241
0
Frá byggingu Vaðlaheiðarganga. Mynd: Fréttablaðið/Auðunn

Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) hefur áhyggjur af því að hið opinbera sé að taka til sín verðmæta starfsmenn af verkfræðistofunum.

<>

Um sé að ræða sérfræðinga sem þær hafi kostað miklu til að þjálfa.

Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV), segir ásókn hins opinbera í lykilstarfsfólk verkfræðistofanna hafa verið að aukast mikið síðustu misserin.

Í stað þess að auka umsvifin með því að eiga viðskipti við verkfræðistofurnar sé hið opinbera að fjölga fólki hjá sér.

Samkvæmt nýrri könnun sem Samtök iðnaðarins gerðu meðal aðildarfélaga FRV telja 75 prósent þeirra að ráðningar hins opinbera á lykilstarfsfólki hafi aukist til muna á síðustu árum.

Þá telja 92 prósent fyrirtækjanna að þetta vegi verulega að samkeppnishæfni þeirra á markaði.

„Þetta er mjög afdráttarlaust og það finna öll fyrirtæki sterklega fyrir þessu. Þetta þýðir bara að það er búið að draga úr okkur tennurnar varðandi það að sækja á erlenda markaði því það þarf mikla reynslu í það,“ segir Reynir.

Hann segir það kaldhæðnislegt að stofnanirnar sem taki þessa starfsmenn þurfi mikið á verkfræðistofunum að halda.

„Stóra gildið í því að vera á markaðnum er að við getum unnið fyrir alla. Það er betra að reynsluboltarnir fáu séu á markaðnum þar sem þeir geta hjálpað öllum. Annars getur þekkingin lokast inni á stofnununum.

“ Hér sé um þjóðhagslega hagsmuni að ræða. Íslendingar hafi náð miklum árangri frá því um 1960 þegar flóknar framkvæmdir eins og við virkjanir hafi farið af stað.

„Nú erum við meðal þeirra fremstu á Norðurlöndunum í sumu. Þetta hefðum við aldrei getað ef allir hefðu verið fastir inni á einhverjum stofnunum. Nú erum við að taka u-beygju sem er grátlega vitlaust.“

Þá segir Reynir að það hafi verið kannað meðal kollega á hinum Norðurlöndunum hvernig þessi mál væru að þróast þar. „Þeir kannast ekki við neina svona breytingu hjá sér. Mín upplifun er sú að við séum að ganga í öfuga átt.“

Heimild: Frettabladid.is