Home Fréttir Í fréttum Vilja reisa 100 her­bergja hót­el á Kjal­ar­nesi

Vilja reisa 100 her­bergja hót­el á Kjal­ar­nesi

263
0
Kjal­ar­nes og Grund­ar­hverfi. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Plús­arki­tekt­ar ehf. hafa hug á að reisa allt að 100 her­bergja hót­el, auk 12 stak­stæðra húsa sem verða leigð út sem gist­i­rými, í Nes­vík á Kjal­ar­nesi.

<>

Land Nes­vík­ur er um 2,5-3 kíló­metra frá Grund­ar­hverfi.

Fram kem­ur í fund­ar­gerð skipu­lags- og sam­gönguráðs Reykja­vík­ur­borg­ar að leitað verður um­sagna um lýs­ingu að deilu­skipu­lagi hjá Skipu­lags­stofn­un, Borg­ar­sögu­safni Reykja­vík­ur, Minja­stofn­un Íslands, Nátt­úru­fræðistofn­un, Um­hverf­is­stofn­un, Veður­stofu Íslands, Vega­gerð og íbúaráði, auk þess að kynna hana al­menn­ingi.

Haft verði sam­ráð við íbúa frá fyrstu stig­um
Í bók­un áheyrn­ar­full­trúa Flokks fólks­ins kem­ur fram að íbú­um í ná­grenn­inu sé ekki kunn­ugt um þess­ar hug­mynd­ir og er borg­in hvött til að hafa íbúa með í ráðum á fyrstu stig­um og boða til fund­ar vegna þess.

„Með því að gera þetta strax á fyrstu stig­um er dregið úr lík­um þess að óánægja skap­ist síðar og kvart­an­ir og að fólki finn­ist sem ekki hafi verið haft við sig viðhlít­andi sam­ráð. Þetta verklag ætti að vera meg­in­regl­an,“ seg­ir í bók­un­inni.

Í gagn­bók­un full­trúa Pírata, Viðreisn­ar og Sam­fylk­ing­ar­inn­ar kem­ur fram að meg­in­regl­an sé að hafa sam­ráð á fyrstu stig­um skipu­lags.

„Hér er verið að stíga fyrsta skrefið í löngu sam­ráðsferli við íbúa, hags­munaaðila og íbúaráð. Málið verður kynnt op­in­ber­lega og í ná­grenn­inu á öll­um stig­um máls­ins.“

Forn­leif­ar við sjáv­ar­bakk­ann
Fram kem­ur í skipu­lags­lýs­ingu að flest­ar forn­leif­ar á svæðinu og þær um­fangs­mestu séu við sjáv­ar­bakk­ann. Þar sé ekki ráðgerð nein mann­virkja­gerð, segja land­eig­end­ur. Ekki er þó úti­lokað að á ein­hverj­um stöðum muni fyr­ir­huguð byggð rek­ast á minj­ar.

Árið 2018 fengu hug­mynd­ir land­eig­enda í Nes­vík um upp­bygg­ingu nýrr­ar byggðar með allt að 600 íbúðum á svæðinu ekki hljóm­grunn á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Meiri­hlut­inn staðfesti til­lögu skipu­lags­full­trúa borg­ar­inn­ar sem lagði til að hug­mynd­inni yrði hafnað.

Heimild: Mbl.is