Home Fréttir Í fréttum ÍAV stefna endur­skoðanda United Silicon

ÍAV stefna endur­skoðanda United Silicon

215
0
Kröfur í þrotabú United Silicon, sem var lýst gjaldþrota í janúar árið 2018, námu um 23 milljörðum króna. Fréttablaðið/Eyþór

Íslenskir aðalverktakar krefjast viðurkenningar á bótaskyldu Ernst & Young vegna endurskoðunar fyrirtækisins á ársreikningum United Silicon. Tjón ÍAV nemur á annan milljarð króna.

<>

Íslenskir aðalverktakar hafa höfðað dómsmál á hendur Ernst & Young vegna endurskoðunar síðarnefnda fyrirtækisins á ársreikningum United Silicon.

Krefst verktakafyrirtækið viðurkenningar á bótaskyldu endurskoðunarfyrirtækisins.

Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.
Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segist í samtali við blaðið telja að endurskoðun United Silicon hafi verið ábótavant og ekki gefið rétta mynd af stöðu félagsins.

Tap verktakafyrirtækisins af gjaldþroti kísilvers United Silicon nemur á annan milljarð króna, að því er segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Rifjað er upp að ÍAV hafi farið með byggingarstjórn og verkstjórn við kísilverið sem var byggt á árunum 2014 til 2016.

Starfsmenn fyrirtækisins lögðu niður störf sumarið 2016 vegna vanefnda United Silicon en gerðardómur komst að þeirri niðurstöðu ári síðar að kísilverið bæri að greiða ÍAV ríflega milljarð króna.

Sú fjárhæð fékkst hins vegar ekki greidd þar sem United Silicon fór í greiðslustöðvun um miðjan ágúst árið 2017.

Félagið var svo lýst gjaldþrota í janúarmánuði árið 2018, eins og kunnugt er.

Heimild: Frettabladid.is