Home Fréttir Í fréttum Alltaf hægt að selja höfuðstöðvarnar

Alltaf hægt að selja höfuðstöðvarnar

320
0
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. Mynd: Gígja Einarsdóttir

Bankastjóri Landsbankans segir að nýjar níu milljarða höfuðstöðvar við hlið Hörpu hafi reynst hentugasti kosturinn fyrir bankann.

<>

Framkvæmdir hófust í byrjun þessa árs við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn við hlið Hörpu.

Ákvörðun um bygginguna var tekin vorið 2017 og þá kom fram að kostnaður yrði um 9 milljarðar, húsið yrði um um 16,5 þúsund fermetrar en að bankinn myndi nýta um 10 þúsund fermetra.

„Við ætlum að selja frá okkur eða leigja — líklega selja — um 40% byggingarinnar,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

„Við erum að fækka fermetrum með því að flytja í húsnæði sem er hentugra og sveigjanlegra fyrir okkur.

Núverandi húsnæði er óhentugt fyrir svona stóran vinnustað.“
Landsbankinn hefur bent á að bankinn starfi í þrettán byggingum í Kvosinni.

Starfsmenn sem flytja eiga í höfuðstöðvarnar starfa nú í húsnæði sem telur um 20 þúsund fermetra og því á fermetrum sem bankinn notar að fækka um helming með flutningunum.

Lilja segir að í nýju höfuðstöðvunum verði horft til verkefnamiðaðs vinnuumhverfis.
„Við verðum með færri hefðbundnar vinnustöðvar en fjöldi starfsmanna segir til um.

Byggingin er hönnuð með það í huga að við getum minnkað við okkur ef starfsemin dregst saman. Ef starfsemin breytist einhvern tímann það mikið að bankinn telur rétt að selja húsnæðið, þá verður þetta alltaf gott húsnæði á góðum stað og því verðmæt eign fyrir bankann.“

Landsbankinn hefur verið gagnrýndur fyrir að byggja dýrar höfuðstöðvar á dýru byggingarlandi. Lilja segir að bankinn hafi skoðað aðra möguleika en á endanum hafi þessi kostur verið talinn ákjósanlegastur.

„Það var ekki nein forsenda að vera þarna. Við fórum mikla í vinnu við að meta hvar við myndum ná markmiðum um nútíma vinnulag og hagkvæmni.

Við skoðuðum marga kosti á mörgum svæðum. Þau voru mislangt komin t.d. hvað varðar hugmyndavinnu og deiliskipulag.“

Heimild: Vb.is