Home Fréttir Í fréttum Öryggið í fyrirrúmi við tvöföldun Reykjanesbrautar

Öryggið í fyrirrúmi við tvöföldun Reykjanesbrautar

318
0

Tvöföldun Reykjanesbrautar (41) frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi er flókið verkefni. Framkvæmdir fara fram í mikilli nálægð við þunga umferð, íbúabyggð er mikil í næsta nágrenni og þar eru einnig skólar og verslanir.

<>

Því er lögð mikil áhersla á öll öryggismál.
Ásta Ósk Stefánsdóttir er öryggis- og gæðafulltrúi verktakans ÍSTAK. Haraldur Hallsteinsson frá Mannviti sér um eftirlit með verkinu sem er afar viðamikið. Rætt var við þau um framkvæmdina.

Ásta Ósk Stefánsdóttir frá ÍSTAK., Haraldur Hallsteinsson frá Mannviti

„Verkefnið snýst um tvöföldun Reykjanesbrautar, 3,2 km leið, frá Kaldárselsvegi alveg út að Krýsuvíkurvegi. Auk þess erum við að smíða tvær göngubrýr í Þorlákstúni annars vegar og Áslandi hins vegar ásamt göngustígum.

Eins erum við að breikka steyptu brúna sem gengur yfir Strandgötu og grafa fyrir undirgöngum fyrir gangandi vegfarendur,“ lýsir Ásta en í verkefninu felst einnig gerð umtalsverðra hljóðvarna. Auk þess þarf að vinna að breytingum á lagnakerfum veitufyrirtækja og grafa fyrir nýlögnum.

Myndir af framkvæmdum við Reykjanesbraut.

Tillit tekið til ólíkra hópa
Verkið gengur vel en aðstæður eru mjög erfiðar. „Við erum að vinna mjög nálægt umferðinni. Þá er gangandi umferð þó nokkur enda skólar hér í næsta nágrenni og bæði íbúabyggð og verslanir í göngufjarlægð. Við þurfum því að taka tillit til ólíkra hópa í framkvæmdinni,“ segir Ásta og bendir á að öryggismál í kringum alla framkvæmdina séu í fyrirrúmi.

„Við erum með miklar vinnusvæðamerkingar og erum með gátskildi og vegsteina meðfram öllu framkvæmdasvæðinu,“ lýsir Haraldur. Mikil áhersla var lögð á góðan undirbúning verksins og gott samband við fólk í nærumhverfinu, íbúa, vegfarendur og verslunareigendur.

„Við kynntum verkið vel fyrir fólki og létum til dæmis vita af því mikla raski sem getur orsakast af sprengingum og bergskeringum sem fara þarf í kringum verkið.“

Myndir af framkvæmdum við Reykjanesbraut.

Sprengingar algengar
ÍSTAK er með um 35 starfsmenn að störfum við framkvæmdina. Nýlega var umferð á Reykjanesbraut flutt yfir á nýtt malbik á vestasta hluta vegkaflans við Krýsuvíkurgatnamót og að Strandgötubrú.

,,Eins og staðan er í dag, er tvístefnuumferð á nýrri suðurakrein á meðan unnið er að tvöföldun norðurakreinarinnar. „Í undirbúningi fyrir þessa vinnu hefur þurft að sprengja nokkuð sem hefur kostað að við höfum þurft að stöðva umferð á Reykjanesbrautinni í hvert skipti.

Af því hljótast vissulega einhverjar tafir en fólk hefur verið ótrúlega skilningsríkt. Við reynum líka að velja tíma til sprenginganna með tilliti til skóla og umferðar og sprengjum ekki á háannatíma,“ segir Ásta en sprengingar verða hluti af verkinu út allan verktímann með hléum.

Myndir af framkvæmdum við Reykjanesbraut.

„Það koma tímabil þar sem við erum að sprengja allt upp í þrisvar í viku.“
,,Á næstu vikum verður áhersla lögð á lækkun eldri norðurakreinar vestan við Strandgötubrú og á nýja suðurakrein austan við Strandgötubrú“ lýsir Ásta.

Stálbrýr og sökklar í smíðum
Unnið er að því að steypa undirstöður fyrir göngubrýrnar tvær sem eru stálbrýr og koma fullsmíðaðar á staðinn. „Við eigum von á brúnum til landsins í byrjun janúar, í framhaldi af því verður brú yfir Þorlákstún sett upp. Brú yfir Ásland verður sett upp haustið 2020.“ segir Haraldur.

Myndir af framkvæmdum við Reykjanesbraut.

Ökumenn tillitssamir og hægja ferðina
Tvöföldun Strandgötubrúar ásamt undirgöngum er vandasamt verkefni og hefur áhrif á umferðina bæði undir brúnni og ofan á henni.

Hraðinn hefur verið tekinn niður og töluvert er þrengt að umferðinni en á undanförnum vikum hefur verið grafið undan brúnni fyrir undirgöngum og uppsteypa á stoðveggjum og loftaplötu hefur verið í gangi

„Þá urðum við að loka einni akrein og færa umferð frá brúninni. Einnig þurfti að loka frárein til að einfalda umferðarflæðið auk þess sem hraðinn var tekinn niður. ,,Undirsláttur brúargólfsins er hafinn og hæðarslár hafa verið settar upp og því er mjög mikilvægt að ökumenn virði þær takmarkanir sem eru settar í umferðinni á framkvæmdasvæðinu.“

Ásta segir ökumenn nokkuð tillitssama. „Okkur sýnist fólk virða hraðatakmarkanir, sérstaklega þegar merkingarnar eru miklar. Við höfum einnig varið okkur sjálf og aðra vegfarendur með vegsteinum en reynum að halda umferðinni fljótandi eins og hægt er til að valda sem minnstri röskun.

Það er þó mjög mikilvægt að vegfarendur séu vel vakandi í umferðinni og taki tillit til þeirra umferðarskilta sem við höfum sett upp því það er eina örugga leiðin fyrir okkur til þess að stýra umferðinni.

Aðstæður á þessum árstíma krefjast fullrar athygli vegfarenda á þessu svæði.“
Verklok eru áætluð í lok árs 2020 og telja þau Ásta og Haraldur ekkert benda til annars en að þau áform muni standast.

Heimild: Vegagerðin.is