Á fimmta tug starfsmanna verktakafyrirtækisins Munck mun dvelja í fjöldahjálparmiðstöðinni í grunnskólanum á Dalvík í nótt. Kristinn Kristinsson verkstjóri er einn þeirra.
Hann segir að starfsmennirnir vinni allir við að reisa fiskverksmiðju niðri á bryggju og hafi haldið þar til í vinnubúðum sem séu kyntar með rafmagni.
„Við erum búnir að vera straumlausir síðan klukkan átta á þriðjudagsmorgun,“ segir Kristinn og viðurkennir að það hafi verið kærkomið að komast inn í hlýjuna.
Vinnubúðir Munck eru við bryggjuna, en Kristinn segir að mesta furða sé hve vel þær sluppu úr óveðrinu. „Það var mjög mikill sjógangur þarna og sjórinn kominn vel yfir kantinn á tímabili.“
Nóttin ætti að vera sú síðasta í fjöldahjálparmiðstöðinni, en Kristinn segir að starfsmennirnir hafi nú orðið sér úti um rafstöðvar sem þeir muni nota til að koma hita og rafmagni á búðirnar.
Heimild: Mbl.is