Home Fréttir Í fréttum Umhverfisáhrif byggingariðnaðarins fallið í skuggann

Umhverfisáhrif byggingariðnaðarins fallið í skuggann

208
0
Þúsundir íbúða munu rísa á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess á næstu þremur árum. Mynd: Bára Huld Beck/ Kjarninn.is

Á síðustu árum hefur byggingariðnaðurinn sótt í sig veðrið og hefur framleiðni íslenskra byggingarfyrirtækja aukist um 40 prósent frá hruni.

<>

Þessari miklu uppbyggingu hefur fylgt aukin mengun og hefur losun koltvísýrings frá iðnaðinum aukist til muna sem og úrgangsmyndun. Stefna íslenskra stjórnvalda varðandi vistspor byggingariðnaðarins og sjálfbæra þróun í mannvirkjagerð er hins vegar óljós.

Byggingariðnaðurinn er einn mest mengandi iðnaður heims. Iðnaðinum fylgir gríðarleg auðlindanotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs.

Tölur sýna að rekja megi um helming auðlindanýtingar í Evrópu og allt að 40 prósent losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu til iðnaðarins. Sem þýðir að hann sé einn sá iðnaður sem losar hvað mest af gróðurhúsalofttegundum á heimsvísu.

Samhliða mikilli uppbyggingu íbúða hér á landi á síðustu árum hefur mengun frá byggingargeiranum aukist til muna. Úrgangur frá mannvirkjagerð hefur rúmlega tvöfaldaðist á þremur árum, frá árinu 2014 til 2017, en hann hefur aukist úr 364.943 tonnum í 873.522 tonn.

Auk þess hefur losun koltvísýrings frá byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð frá hagkerfi Íslands aukist til muna. Losun frá byggingariðnaðinum var 190 tonn árið 2017 sem er 40 prósent meiri losun en fjórum árum áður.

Ísland, ásamt flestum ríkum heims, hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að sjálfbærri þróun. Vistspor byggingariðnaðar hefur hins vegar ekki komist í hámæli hjá stjórnvöldum og engin heildstæð stefna hefur verið mótuð um sjálfbærni þegar kemur að mannvirkjagerð.

Mikill vöxtur hefur verið í byggingarstarfsemi hér á landi á síðustu árum og hefur fram­leiðni vinnu­afls í bygg­ing­ar­starf­semi auk­ist tals­vert umfram með­al­þróun hag­kerf­is­ins í heild síð­ustu tíu ár. Alls hafa íslensk fyr­ir­tæki í bygg­ing­ar­starf­semi aukið fram­leiðni sína um tæp 38 pró­sent frá árinu 2008.

Á árunum eftir hrun var lítil fjárfesting í íbúðarhúsnæði og því lítið byggt en á undanförnum árum hefur orðið stóruppbygg­ing í kjölfar aukinnar eftirspurnar. Á árnum 2013 til 2017 fjölgaði íbúðum hér á landi um 6.500, samkvæmt talningu Íbúðalánasjóðs.

Samhliða þessari miklu uppsveiflu í byggingariðnaði hefur vistspor iðnaðarins aukist hér á landi. Vistspor byggingarferlisins er gríðarstórt, allt frá notkun auðlinda af skornum skammti til niðurrifs bygginga. Samkvæmt Umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) er byggingariðnaðurinn ábyrgur fyrir 36 prósent af endanlegri orkunotkun heimsins og nærri 40 prósent af orkutengdri losun koltvísýrings árið 2017.

Enn fremur er byggingarúrgangur að jafnaði stærsti úrgangsflokkur landa. Ísland er þar engin undantekning en á síðustu árum hefur úrgangur frá mannvirkjagerð aukist gífurlega sem og losun gróðurhúsalofttegunda.

Rúmlega 800 þúsund tonn af úrgangi
Í tölum Umhverfisstofnunar má sjá að úrgangurinn frá mannvirkjagerð, byggingar- og niðurrifsúrgangur auk óvirks úrgangs, hefur rúmlega tvöfaldast á þremur árum frá árinu 2014 til 2017. Farið úr 364.943 tonnum í 873.522 tonn, eins og áður segir.

Þá hefur magn af grófum úrgangi sem berst til móttöku- og flokkunarstöðvar Sorpu, sem tekur aðallega við úrgangi frá heimilum, einnig aukist til muna á síðustu árum. Grófur úrgangur er til að mynda innréttingar, ónýt húsgögn, gólfefni og svo fleiri. Sá úrgangur hefur aukist úr 4.600 tonnum árið 2015 í 9.600 tonn árið 2017.

Byggingar- og niðurrifsúrgangur var alls 49 prósent af úrgangi á Íslandi árið 2017. Ef óvirkur úrgangur er hins vegar reiknaður með þá er úrgangur af mannvirkjagerð 62 prósent af heildarúrgangi Íslendinga. Óvirkur úrgangur er til að mynda múrbrot, gler og uppmokstur.

Losun frá byggingariðnaði eykst aftur eftir hrun
Vexti í byggingariðnaði hefur ekki einungis fylgt aukinn úrgangur heldur einnig aukin losun gróðurhúsalofttegunda. Í tölum Hagstofu Íslands má sjá að verulega hægðist á losun koltvísýrings frá byggingariðnaði á árunum eftir hrun. Árið 2013 var losun frá hagkerfi Íslands vegna byggingastarfsemi og mannvirkjagerð alls 135,18 tonn. Fjórum árum síðar var losunin 189,79 tonn og hafði því aukist um 40 prósent.
Þá hefur losun metans frá byggingarstarfsemi aukist samhliða losun koltvísýrings og var alls 113,56 kílótonn árið 2017 en 80,7 kílótonn árið 2013.

Von á þúsundum íbúða á næstu árum
Ekkert lát er á uppbyggingu íbúða á næstu árum ef marka má spár. Alls eru nú um 6.000 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum, samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins í september síðastliðnum. Samtökin spá því að 2.660 íbúðir verði fullgerðar á þessu svæði á næsta ári, 2.513 íbúðir árið 2021 og 2.667 á 2022. Því má búast við 7.840 fullgerðum íbúðum á næstu þremur árum.

Gangi spáin eftir verður framboð nýrra íbúða á næstu árum mun meira en á uppgangsárunum fyrir efnahagsáfallið, en á árunum 2006 til 2008 komu árlega um 2.100 nýjar íbúðir inn á markaðinn.

Ríkisstjórnin hefur einnig lofað uppbyggingu íbúða á næstu árum. Samkvæmt lífskjarasamningum svonefndu sem kynntir voru í vor lofuðu stjórnvöld að framlög í almenna íbúðakerfinu yrðu aukin um tvo milljarða króna á hverju ári eða samtals sex milljarða á árunum 2020 til 2022. Með þessu áætla stjórnvöld að unnt verði að ráðstafa stofnframlögum til byggingar allt að 1.800 íbúða á næstu þremur árum.

Ein af stóru áskorunum samtímans
Hönnun bygginga, staðsetning, efnisnotkun og orku- og vatnsnotkun hefur mikið að segja varðandi losun gróðurhúsalofttegunda í byggingariðnaði. Meðallíftími bygginga er langur og því hafa þær alla jafna áhrif á umhverfi sitt í langan tíma. Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) telur því að sjálfbær þróun í byggingariðnaði sé ein af stóru áskorunum samtímans.

Hlutverk FSR er meðal annars að vera leiðandi afl á sviði opinberra framkvæmda og er stofnunin í fararbroddi við innleiðingu á vistvænum áherslum í byggingariðnaði. Vistvæn bygging grundvallast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar en sjálfbær þróun leitast við að mæta þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.

Samkvæmt FSR eru helst þrír hvatar fyrir því að byggja vistvænt. Í fyrsta lagi er umhverfislegur hvati en líkt og rakið hefur verið hér að ofan þá eru umhverfisáhrif byggingariðnaðarins umtalsverð. Í öðru lagi er fjárhagslegur hvati en samkvæmt FSR sýnir reynsla erlendis að vistvænir byggingar verði verðmætari en aðrar byggingar vegna góðrar ímyndar, heilsusamlegs umhverfis og minni rekstrarkostnaðar.

Í þriðja lagi er heilsufarslegur hvati en minni notkun eiturefna og hættulegra efna í byggingarvörum stuðlar að heilnæmu umhverfi. Losun skaðlegra efna í byggingum getur valdið heilsufarslegum vandamálum, allt frá almennri vanlíðan til ofnæmis.

Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum bygginga
Í vistvænni byggingu er á kerfisbundinn hátt leitast við að hámarka notagildi og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Við hönnun vistvænna bygginga er meðal annars lögð áhersla á orkumál, efnisval, staðarval og heilsuvernd. Til að mynda er haft í huga aðgengi að vistvænum samgöngum, nálægð bygginga við almenningssamgöngur og hjólastíga. Auk þess þarf að hafa í huga lágmörkun jarðrasks, notkunar orku á byggingarstað og lágmörkun flutninga.

Þá skiptir efnisval einnig miklu máli en til að stuðla að minna vistspori er lagt til að lágmarka eiturefni og velja frekar efni með litla viðhaldsþörf og langan endingartími. Auk þess er hægt velja byggingarefni úr endurnýjanlegum auðlindum en framboð slíkra efna er þó af skornum skammti á Íslandi. Steinsteypa er mest notaða íslenska byggingarefnið en víða erlendis er hún álitin síðra byggingarefni en mörg önnur í vistvænum byggingum vegna losunar koltvísýrings við framleiðslu sements. Talið er að sementframleiðsla ein og sér losi um 8 prósent af koltvísýringi í heiminum.

Ólafur H. Wallevik, forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins, sagði í samtali við RÚV í ágúst síðastliðnum að hægt væri að minnka kolefnisspor steypu í íslenskum byggingariðnaði um meira en helming með nýrri aðferð.

Hann hefur þróað loftslagsvænnni steypu sem hefur verið notuð víða heim en lítið sem ekkert hér. Hann segir að verkkaupar biðji einfaldlega ekki um vistvæna steypu og að byggingarreglugerð þvælist einnig fyrir.

Víða um heim hefur timbur jafnframt verið notað í stað steypu þar sem kolefnisspor timburs er mun minna.

Á annan tug vistvænna bygginga
Hér á landi hafa tólf byggingar verið vottaðar, eða eru í vottunarferli, sem vistvæn hús af FSR. Stofnunin styðst við breska vistvottunarkerfið BREEAM í stærstu verkefnunum en markmiðið með vottuninni er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum yfir líftíma bygginga með því að stuðla að umhverfisvænni hönnun og heilsusamlegra umhverfi fyrir notendur.

Á meðal þeirra húsa sem hlotið hafa slíka vottun er Framhaldsskóli Mosfellsbæjar, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og sem Náttúrufræðistofnun Íslands í Urriðaholti. Skipulag Urriðaholts er auk þess fyrsta hverfið hér á landi til að hljóta vistvottun samkvæmt vottunarkerfi BREEAM.

Í Urriðaholti er jafnframt fyrsta einbýlishúsið á Íslandi sem fengið hefur svansvottun en það er Brekkugata 2 sem er í eigu hjónanna Finns Sveinssonar og Þórdísar Jónu Hrafnkelsdóttur. Enn fremur er unnið að svansvottun fyrsta fjölbýlishússins hér á landi, en þar er um að ræða 34 smáíbúðir við Urriðaholtsstræti eða Ikea-blokkin svokölluð.

Vitundarvakning um ábyrgð byggingariðnaðarins
Vitundarvakning og umræða um sjálfbærni í byggingariðnaði hefur aukist hér á landi á síðustu árum og virðast íslensk stjórnvöld loks vera að ranka við sér. Fleiri vistvæn hús hafa risið upp á vegum FSR og sveitarfélaga og kokkur bæjarfélög hafa tekið á skarið og lagt aukna áherslu á grænni byggð.

Þar á meðal er Hafnarfjarðarbær en í maí síðastliðnum samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar sjö tillögur að aðgerðum til að hvetja húsbyggjendur til að setja umhverfið í forgang í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þar á meðal samþykkti bæjarstjórn að veita 20 til 30 prósent afslátt af lóðarverði til að hvetja framkvæmdaraðila til þess að fá svansvottun, BREEAM vottun eða sambærilegt á nýbyggingar. Auk þess hefur tekið bærinn tekið upp sektarkerfi í sambandi við endurvinnslu úrgangs á framkvæmdastað og jafnframt þurfa 20 prósent byggingarefna í nýframkvæmdum að hafa umhverfisvottun.

Vistvænar lausnir í byggingariðnaði hafa einnig gætt í stefnum núverandi ríkisstjórnar þó að heildarsýn stjórnvalda í málarflokknum sé ekki að finna. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er meðal annars kveðið á um að yfirfara eigi stjórnsýsluna vegna byggingarframkvæmda og að við þá vinnu skuli meðal annars litið til framsækinna, umhverfisvænna og vistvænna lausna að því er varðar mannvirki almennt, íbúðarhúsnæði og samgöngur.

Áhersla ríkisstjórnarinnar hefur þó aðallega snúið að aðgengi að almenningssamgöngum þegar kemur vistvænum lausum tengdum mannvirkjum. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í september 2018 er ekkert minnst á aðgerðir varðandi vistspor byggingariðnaðarins nema að lagt er til að stefna skipulagsaðgerða sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem með samþættu byggðar- og samgönguskipulagi sem dregur úr ferðaþörf, styður fjölbreyttan ferðamáta og tryggir innviði fyrir orkuskipti.

Átakshópur ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál sem skipaður var í nóvember 2018 lagði jafnframt fram tillögur sem tengjast vistvænni lifnaðarháttum og aukinni sjálfbærni. Þar lagði hópurinn áherslu á að setja verði í forgang við ráðstöfun stofnframlaga og annarra opinberra framlaga vegna uppbyggingar á íbúðarleiguhúsnæði verkefni þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi.

Þessar sem og aðrar tillögur átakshópsins voru lagðar til grundvallar við gerð lífskjarasamninganna og vinna stjórnvöld nú að nánari útfærslu og eftirfylgni þeirra.

Í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að vistvænar framkvæmdir eru á meðal þess sem er til sérstakar skoðunar í útfærslu tillaga starfshópsins og ráðgert er að frumvarp þess efnis verði lagt fram á núverandi löggjafarþingi. Auk þess má vænta uppfærðrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum á næstu misserum.

Tímabært að byggingariðnaðurinn hætti að vera hluti af loftslagsvandanum
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur þó að undanförnu beint sjónum sínum að losun byggingariðnaðarins hér á landi. Fyrr í október funduðu byggingar- og húsnæðismálaráðherrar Norðurlandanna, þar á meðal Ásmundur Einar, um byggingariðnaðinn á Norðurlöndunum en þriðjungur af losun norrænu landanna á koltvísýringi kemur frá húsnæði og byggingariðnaði.

Ráðherrarnir sammæltust um draga þurfi úr losun koltvísýrings frá húsnæði og byggingariðnaði á Norðurlöndum og skuldbundu ráðherrarnir sig til leitast við að vera í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að þessum málum.

Í yfirlýsingu ráðherranna segir að stefnt sé að auknu samráði landanna til að draga úr losun og hvetja þeir aðila innan byggingariðnaðarins og fasteignageirans til að taka höndum saman um norræna samstöðu um byggingarframkvæmdir með lága koltvísýringslosun.

Auk þess leggja ráðherrarnir áherslu á hringrásarhagkerfi og kalla eftir lagasetningu á evrópskum vettvangi sem ýti undir aukna endurnýtingu byggingarefnis en byggingar sem hafa þegar verið reistar geyma mikið af nothæfu byggingarefni,

„Markmiðinu um að gera Norðurlönd að kolefnishlutlausu svæði, sem norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu á fundi sínum í ágúst, verður ekki náð nema húsnæðis- og byggingariðnaðurinn bregðist hratt við.

Það er löngu tímabært að byggingariðnaðurinn hætti að vera hluti af loftslagsvandanum og verði hluti af lausninni,“ var haft eftir Ásmundi Einari á vef Stjórnarráðsins eftir fundinn.

Stjórnvöld mega gera miklu betur
Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar, segir í samtali við Kjarnann að umræðan um sjálfbærni í byggingariðnaði hafi vissulega aukist hér á landi á síðustu árum og ýmislegt jákvætt komið upp úr krafsinu í kjölfarið.

Að hennar mati mættu íslensk stjórnvöld aftur á móti gera mun betur þegar kemur málaflokknum og segir hún það í raun ótrúlega skrítið að stjórnvöld hafi ekki markað sér neina heildstæða stefnu fyrir byggingariðnaðinn.

Grænni byggð er vettvangur um vistvæna þróun sem hét áður Vistbyggðaráð og var stofnað 2010. Nafninu var breytt nýlega þegar samtökin gengu í alþjóðleg samtök sem heita World Green Building Councils.

Innan Grænni byggðar eru 46 aðildarfélög um allt land og er markmið samtakanna að breyta hinu byggða umhverfi til vistvænni hátta þannig að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.

Samtökin hafa ekki enn komið að stefnumótun á vegum hins opinbera en samtökin hafa hlotið styrki fyrir rannsóknir og skýrslugerð frá Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun
Þórhildur Fjóla bendir meðal annars á að ríkisstjórnin hafi ekkert minnst á umhverfisáhrif byggingariðnaðarins þegar hún kynnti skipun átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði í nóvember í fyrra, tveimur mánuðum eftir að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var kynnt.

Engin áhersla lögð á kolefnisspor byggingargeirans
Grænni byggð skilaði jafnframt inn umsögn um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum þar sem samtökin gagnrýna að engin áhersla sé lögð á byggingargeirann í áætluninni.

Samtökin leggja meðal annars til í umsögn sinni að ríkið setji sér markmið um að stuðla að og innleiða fjárhagslega hvata og flýtimeðferðir fyrir vistvænar byggingar.
Enn fremur stinga samtökin upp á að stjórnvöld fjármagni vistferlisgreiningar á fimm opinberum byggingum í ár til að auka þekkingu.

Samtökin telja jafnframt að útreikningar á kolefnisspori framkvæmda ætti að vera eðlilegur hluti af umhverfismati
Að mati Grænni byggðar þarf að kortleggja betur kolefnispor frá byggingariðnaði hér á landi þar sem núverandi tölur um losun sé ábótavant en með slíkri kortlagningu væri hægt að fara í tilhlýðlegar mótvægisaðgerðir.

„Hvernig við staðsetjum, hönnun, byggjum, rekum og tökum niður byggingar er mikilvægt umhverfis- og loftslagsmál. Ef við þekkjum ekki stöðuna nógu vel er erfitt að setja sér markmið. En byggingarframkvæmdir og rekstur bygginga á Íslandi getur verið mun kolefnisvænni og umhverfisvænni en í dag og við verðum að sjá jákvæða framþróun í þeim geira eins og í öðrum geirum,“ segir að lokum í umsögninni.

Heimild: Kjarninn.is