Home Fréttir Í fréttum Hafa sótt um að rífa Íslandsbankahúsið

Hafa sótt um að rífa Íslandsbankahúsið

293
0
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, hafa óskað eftir því að fá að rífa fyrrverandi höfuðstöðvar bankans á Kirkjusandi í Reykjavík. Framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir að sótt hafi verið um niðurrif fyrir nokkrum vikum. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur segir að stefnt sé að því halda samkeppni um hvað verði byggt á reitnum.

<>

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, sem sér um uppbygginguna á Kirkjusandi, segir að húsið verði rifið um leið og nýtt skipulag liggur fyrir. Hann segir að áhugi sé fyrir því að virða og halda upp á atvinnusögu svæðisins, en þarna var fiskvinnsla til margra ára.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir að samningar séu nú í gangi um hvað komi þarna í staðinn.

Samkeppni um skipulag
Þau segja bæði óumdeilt að húsið sé ónýtt af myglu. „Það sem liggur fyrir er að væntanlega verður farið í samkeppni um nýtt skipulag á reitnum. Það er ekki búið að ákveða neitt eða þinglýsa en það er það sem verið er að vinna að,“ segir Kjartan.
Viðræður við borgina gangi heldur hægt.

„En það hefur þurft að kanna ýmis mál. Það er flókið að skipuleggja hverfi.“ Kanna hafi þurft áhrif á skólamál í hverfinu, vegna fjölgunar íbúa, áhrif á umferð og álagspunkta auk þess sem borgarlína fari þarna um. „Þetta þarf að skoða vel og tekur tíma.“

Íslandsbankahúsið var áður hraðfrystihús til fjölda ára. Sigurborg segir að ekki hafi verið ákveðið hvort gamla frystihúsið verði endurbyggt í upprunalegri mynd, hluti þess eða hvort þess verði minnst á annan hátt.

„Um leið og samningar nást um hvað verður á reitnum og hvernig hússins verður minnst þá reikna ég með að það fari af stað samkeppni og í kjölfarið uppbygging á reitnum.“ Ekki sé komin tímasetning á hvenær samkeppnin verði haldin.

Fiskvinnsla á Kirkjusandi í hátt í 30 ár
Togaraútgerðarfélögin Júpíter hf. og Mars hf. ráku hraðfrystihús á Kirkjusandi frá árinu 1948 og til ársins 1973. Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti frystihúsið eftir eldgosið í Heimaey og rak til ársins 1975. Þá eignaðist Samband íslenskra samvinnufélaga húseignirnar við Kirkjusand og hóf á níunda áratugnum að breyta frystihúsinu í skrifstofuhús fyrir nýjar höfuðstöðvar Sambandsins.

Áður en af því varð tók að halla undan fæti hjá Sambandinu. Íslandsbankinn eignaðist húsið og aðrar eignir á lóðinni og flutti þangað höfuðstöðvar sínar árið 1995. Mygla fannst í húsinu fyrir nokkrum árum og flutti bankinn alla starfsemi úr húsinu í byrjun árs 2017.

Blönduð byggð
Kjartan segir að gamla banka/frystihúsið á Kirkjusandi sé um 6.900 fermetrar en á reitnum sé heimilt að byggja allt að 20.100 fermetra, samkvæmt núgildandi deiliskipulagi. „Við höfum alltaf sagt að það væri langbest fyrir hverfið að þarna kæmi blönduð byggð, svipað og á reitnum við hliðina á,“ segir Kjartan þegar hann er spurður hvað Íslandssjóðir vilji að verði byggt á reitnum. „Við viljum að þarna rísi gott hverfi og að það taki ekki of langan tíma.“

Kjartan segir að sérstaklega verði óskað eftir hugmyndum um þetta. „Hvernig hægt væri að gera það á sniðugan hátt í gegnum þessa samkeppni. Þetta hús á sér langa sögu og hefur breyst mikið frá því það var fyrst byggt, þá á tveimur hæðum. Síðan þá hefur verið byggt við það og ofan á það tvisvar,“ segir Kjartan og telur það segja lítið að tala um húsið í upprunalegri mynd. „Á einhverjum tímapunkti var þetta fallegt hús. Við höfum grafið upp gamlar ljósmyndir og lýsingar. Það eru margir sem unnu þarna og stigu sín fyrstu skef þarna á vinnumarkaði. Það er merkileg saga á þessu svæði og meiningin að láta hönnun á nýja reitnum bera vitni um það á einhvern hátt.“

Mynd: Aðsend mynd

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hvernig Kirkjusandslóðinni er skipt niður. Nú þegar hefur töluvert verið byggt á þeim hluta þar sem Strætó var áður með aðstöðu.
Kjartan segir að framkvæmdir séu hafnar á reitum G og H á vegum Bjargs íbúðafélags. Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins eigi reit I en þar séu framkvæmdir ekki hafnar. 105 Miðborg byggir nú íbúðahúsið Stuðlaborg á reit D og skrifstofuhúsið Sjávarborg á reit B og Sólborg á C, en þar eiga að vera íbúðir og verslun.

Heimild: Ruv.is