Home Fréttir Í fréttum Þingvallavegur opnaður á Degi íslenskrar náttúru

Þingvallavegur opnaður á Degi íslenskrar náttúru

103
0
Mynd: Vegagerðin

Þingvallavegur var formlega opnaður í dag, á Degi íslenskrar náttúru.

<>

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar klipptu á borða á veginum sem hefur verið endurbættur verulega á átta kílómetra kafla frá þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum og í austurátt.

Málþing í Hakinu

Framkvæmdin á Þingvallavegi er um margt sérstök. Vegurinn liggur í þjóðgarðinum Þingvöllum sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.

Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá og framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum. Þá liggur Þingvallavegur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg. Því var framkvæmd endurbótanna bundin ýmsum verndarákvæðum og afar áhugavert að sjá hvernig hönnun vegarins og framkvæmd endurbótanna tóku tillit til hinnar viðkvæmu náttúru í þjóðgarðinum.

Vegna þess hve framkvæmdin þótti sérstök var haldið stutt málþing í Hakinu að lokinni vígslu vegarins. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fagnaði framkvæmdinni og fór einnig yfir þau stóru verkefni sem framundan eru í samgöngum á landinu.

Einar Einar E. Á. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hélt sögulegt yfirlit yfir vegagerð í þjóðgarðinum allt frá landnámsöld. Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar fór yfir framkvæmdina sjálfa sem þykir hafa lukkast afar vel og Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur yndisgróðurs hjá Landbúnaðarháskóla Íslands ræddi um aðkomu skólans að framkvæmdinni en LBHÍ vann gróðurfarsskýrslu fyrir Vegagerðina.

Vallavegur lokaður

Samhliða opnun endurbætts Þingvallavegar verður Vallavegur gerður að botnlanga, en vegurinn var nýttur sem hjáleið meðan á framkvæmdum stóð.

Eingöngu verður hægt að fara inn á Vallaveg við norðurenda hans. Þessi breyting er gerð í samræmi við stefnumörkun Þingvallanefndar og miðar að því að bæta upplifun og auka öryggi.

Ítarlegri lýsingu á verkinu er að finna hér að neðan.

 

Endurbætur á Þingvallavegi

Samantekt um framkvæmd

 

Endurbætur á Þingvallavegi (36)  frá þjónustumiðstöð að tengingu við Vallaveg voru orðnar aðkallandi. Ástand vegarins var slæmt, bæði slitlag orðið ónýtt og undirbygging orðin mjög léleg. Þá voru fláar of brattir og sköpuðu hættu auk þess sem vegurinn var mjór og erfitt fyrir rútur að mætast. Mikilvægt þótti að endurbæta veginn til þess að auka umferðaröryggi hans en tvær rútur fóru nærri á hliðina á veginum þegar vegöxl gaf sig undan þunga þeirra.

Umferð um veginn hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250 % aukning. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring.

Nokkur dráttur varð á undirritun verksamnings og upphafi framkvæmda þar sem Landvernd kærði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun Skipulagsstofnunar, frá 18. febrúar 2018, að fyrirhugaðar framkvæmdir við Þingvallaveg skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Úrskurðarnefndin ákvað, þann 25 apríl 2018, að ekki skildi stöðva framkvæmdir í samræmi við kröfu Landverndar. Hófst þá vinna við umsóknir um framkvæmdaleyfi bæði vegna framkvæmdanna í heild og einnig vegna efnistöku í Svartagili. Sveitarfélagið Bláskógarbyggð gaf út bæði framkvæmdaleyfin þann 15. júní 2018.

Framkvæmdin

Verkið var boðið út í mars 2018. Lægstbjóðandi var Þjótandi ehf.

VSÓ ráðgjöf sá um hönnun vegarins, Þjótandi á Hellu um framkvæmdina og Mannvit hafði umsjón með framkvæmdum. Framkvæmdadeild Vegagerðarinnar sá um verkefnastýringu og umsjón.

Framkvæmdir hófust í lok júní 2018 við aðstöðusköpun og efnisvinnslu. Þingvallavegi var lokað frá 30. júlí til 25. október það ár en á þeim tíma var lokið við endurbætur á þriggja kílómetra kafla.

Seinni hluti framkvæmda hófst með lokun Þingvallavegar 24. apríl 2019. Vegurinn verður opnaður á ný 16. september og hefur þá verið lokið við 5 km til viðbótar. Það hafa því verið endurbyggðir 8 km á tveimur árum.

Vegurinn var að jafnaði breikkaður um tvo metra og er nú 8 metrar á breidd. Hann er malbikaður til að bæta hljóðvist. Útskotum var fækkað mjög en þau voru áður 50. Í dag eru fjögur bílastæði á veginum, þrjú 8-10 bíla og eitt fyrir 25 til 30 bíla.

Á veginum verður 50 km hámarkshraði.

Vallavegur lokaður í annan endann

Umferð var beint á hjáleið um Vallaveg meðan á lokuninni stóð en gera þurfti talsverður endurbætur á honum. Vallavegur var illa farinn og hefði ekki getað borið aukna umferð án þess að gert yrði við hann.

Samhliða því að endurbættur Þingvallavegur verður opnaður fyrir umferð verður Vallavegur gerður að botnlanga. Því verður eingöngu hægt að fara inn á Vallaveg í norðurenda vegarins, við Silfru. Þessi breyting er gerð í samræmi við stefnumörkun Þingvallanefndar og miðar að því að bæta upplifun og auka öryggi.

Flókin framkvæmd í sátt við umhverfið

Framkvæmd endurbótanna var bundin ýmsum verndarákvæðum enda liggur vegurinn í þjóðgarðinum, en þinghelgin er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá og framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum. Þá liggur Þingvallavegur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg.

Mikilvægt var að raska sem minnstu við framkvæmdina og því var veginum lokað með öllu til að verktaki gæti unnið af gamla veginum sjálfum. Gróðurinn sem þurfti að fjarlægja var settur upp á veginn til geymslu meðan unnið var við breikkun vegarins. Síðan var gróðrinum komið fyrir í nýjum vegfláa. Þessi aðgerð var undirbúin vel í samstarfi við Landbúnaðarháskólann sem vann gróðurfarsskýrslu fyrir gróðurinn á svæðinu.

Vel heppnuð framkvæmd

Áætlaður heildarkostnaður verksins var 767 milljónir króna. Endanlegu uppgjöri verksins er ekki lokið en búast má við auknum kostnaði sér í lagi vegna endurbóta á hjáleiðinni um Vallaveg.

Samstarfs-, eftirlits- og umsagnaraðilar eru sammála um að ágætlega hafi tekist til við þessa framkvæmd. Það verklag sem notað var við endurheimt staðargróðurs verður væntanlega notað við svipuð verk í framtíðinni. Þess má geta að tillögur verktakans, Þjótanda ehf., voru notaðar við þá vinnu.

Heimild: Vegagerðin