Home Fréttir Í fréttum Íbúðum í byggingu fækkar lítillega

Íbúðum í byggingu fækkar lítillega

205
0
Mynd: Samtök iðnaðarins

Samkvæmt nýrri talningu Samtaka iðnaðarins eru 6.009 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum.

<>

Það eru 2,4 % færri íbúðir en voru í byggingu á svæðinu í síðustu talningu SI sem gerð var í mars sl. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI, Íbúðatalning haust 2019.

Talningin sýnir að viðsnúningur er í íbúðabyggingum en á sama tíma í fyrra mældist 18,6% fjölgun íbúða í byggingu á svæðinu.

Fækkun er fyrst og fremst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en viðlíka fjöldi af íbúðum er nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í mars sl. samkvæmt talningunni.

Niðurstaða talningarinnar endurspeglar þéttingastefnu stærstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem ríflega helmingur allra íbúða í byggingu í Reykjavík og Kópavogi eru á slíkum reitum.

Ibudir-i-byggingu-haust-2019

Færri ný verkefni

Samkvæmt talningu SI er fækkunin mest í íbúðum sem eru á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Slíkar íbúðir eru nú 2.520 sem er fækkun um 18,3% frá því í mars-talningu SI.

Það er viðsnúningur frá því sem mældist á sama tíma í fyrra en þá var 28% vöxtur í þessum hluta íbúðabygginga á milli mælinga.

Greina mátti viðsnúning í þessum hluta íbúða í byggingu í talningunni í mars sl. en þá nam fækkun þeirra 2,2% frá því í september á sl. ári.

Í heild hefur íbúðum á þessu byggingarstigi því fækkað um 20,2% á einu ári. Af niðurstöðum talningarinnar má dæma að byggingaraðilar eru að öllum líkindum að bregðast við breyttum horfum í efnahagsmálum.

Talningar SI á íbúðum í byggingu hafa undanfarin ár borið með sér að framundan væri vaxandi fjöldi fullbúinna íbúða að fara á markað.

Nú virðast hins vegar vera ákveðin vatnaskil í þessum tölum sem benda til þess að fjöldi fullbúinna íbúða kunni að fækka á næstu misserum. Endurspeglast þetta í spá SI um fjölda fullbúinna íbúða 2019-2021.

Fleiri íbúðir eru fokheldar og lengra komnar

Fjölgun er í íbúðum í talningu SI sem eru fokheldar og lengra komnar. Þær eru nú 3.489 sem er fjölgun um 13,7% frá talningunni í mars.

Hluti þessara íbúða eru þegar fullbúnar og komnar í sölu. Hækkandi meðalsölutími eigna samhliða versnandi efnahagsástandi getur því átt sinn þátt í að auka fjölda íbúða á þessu byggingarstigi í efnahagslegri niðursveiflu.

Spá færri fullbúnum íbúðum

SI spá því að 2.660 íbúðir verði fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum þess á næsta ári. Samkvæmt spánni verða nokkuð færri íbúðir fullgerðar á árinu 2021 eða 2.513 sem er 5,5% fækkun frá fyrra ári.

Þetta er einnig nokkur lækkun á fullbúnum íbúðum frá síðustu spá SI sem birt var í mars sl. Fullgerðum íbúðum fjölgar hins vegar á milli áranna 2021 og 2022 og verða 2.667 á því ári samkvæmt spánni.

Aukningin sem er 6,1% tengist m.a. þeim viðsnúningi sem reikna má með að verði í hagkerfinu á þeim tíma.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Heimild: SI.is