Home Fréttir Í fréttum Nýja brúin yfir Eldvatn hjá Ásum senn opnuð umferð

Nýja brúin yfir Eldvatn hjá Ásum senn opnuð umferð

245
0
Nýjan brúin er skammt neðan þeirrar gömlu. Í Skaftárhlaupinu fyrir fjórum árum var gljúfrið í beygjunni bakkafullt. Mynd: Stöð 2/Þorsteinn Magnússon.

Smíði nýrrar glæsibrúar yfir Eldvatn í Skaftárhreppi er núna á lokametrunum og vonast Vegagerðin til að hún verði opnuð umferð í október. Fjögur ár verða þá liðin frá því gamla brúin eyðilagðist í Skaftárhlaupi. Mannvirkin mátti sjá í fréttum Stöðvar 2.

<>

Menn segja að gamla brúin hangi ennþá uppi á lyginni og svo mikið er árbakkinn sprunginn í kringum hana að hann er beinlínis varasamur. Síðustu fjögur ár hefur rútum og vörubílum verið bannað að aka yfir brúna, þar hefur gilt fimm tonna hámarksþungi. En núna sjá menn loksins fram á að samgöngur við Skaftártungu komist í eðlilegt horf, – ný brú er risin.

Í frétt Stöðvar 2 var rifjað upp hvernig umhorfs var við nýja brúarstæðið fyrir fjórum árum þegar Skaftárhlaupið var í sínum mesta ham. Vegagerðarmenn vonast þó til að nýja brúin standi af sér slíka ógnarkrafta næstu aldir.

Smíði hennar hófst haustið 2018 þegar undirstöður voru steyptar. Stálbogabrúin sjálf var smíðuð í Póllandi en flutt til Íslands í bútum og sett saman á staðnum. Síðan var hún dregin yfir ána.

Verktakinn Munck annast brúarsmíðina en Framrás í Vík leggur vegina að henni. Heildarkostnaður er áætlaður um 600 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum frá Einari Magnússyni hjá Vegagerðinni. Steypuvinnu lauk fyrir síðustu helgi og vegagerð á að vera lokið 1. nóvember en Einar segir líklegast að brúin verði opnuð í október.

 

Heimild: Visir.is