Home Fréttir Í fréttum Falla frá hugmyndum um hótel á Byko-reitnum

Falla frá hugmyndum um hótel á Byko-reitnum

249
0
Drög að útliti einnar byggingarinnar sem gert er ráð fyrir að rísi á Byko-reitnum Mynd: PLÚSARKITEKTAR

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur fyrir sitt leyti samþykkt að auglýsa tillögu Plúsarkitekta að breytingu á deiliskipulagi Byko-reitsins svokallaða.

<>

Nýir eigendur reitsins vilja falla frá hugmyndum um hótel á reitnum og fjölga þess í stað íbúðum.

Borgarráð á eftir að samþykkja afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs.

Reiturinn afmarkast af Framnesvegi, Hringbraut og Sólvallagötu en þar eru nú bílastæði. Reiturinn er nefndur Byko-reiturinn þar sem Byko-verslun var um árabil í því húsnæði sem verslunin Víðir var nýverið í áður en verslunin lokaði.

Árið 2016 voru kynntar breytingar á deiliskipulagi reitsins sem gerðu ráð fyrir 70 íbúðum á reitnum á tveimur til fjórum hæðum, gististað á einni til fimm hæðum auk verslana og þjónustu. Heildarbyggingarmagn var samkvæmt tillögunni 15.700 fermetrar.

Í tillögu Plúsarkitekta er óskað eftir því að Reykjavíkurborg veiti heimild fyrir því að fallið verði frá hugmynd að hóteli á reitnum. Þess í stað verði gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á öllum reitnum, auk atvinnuhúsnæði á jarðhæð við Hringbraut. Þannig er óskað eftir því að leyfilegum hámarksfjölda íbúða verði breytt úr 70 í 84 íbúðir.

Þá er óskað eftir því að inn- og útkeyrsla bílakjallara verði á Hringbraut en núverandi deiliskipulag gerir ráð fyrir innkeyrslu við Hringbraut en útkeyrslu við Sólvallagötu. Þá er einnig óskað eftir því að svalir megi ná út fyrir byggingarreit og/eða lóðamörk að Hringbraut. Ekki er óskað eftir auknu byggingamagni eða fjölgun hæða og umfang mannvirka á lóðinni verði óbreytt frá gildandi deiliskipulagi.

Drög að afstöðumynd reitsins.
MYND/PLÚSARKITEKTAR

Í tillögu Plúsarkitekta segir að nýir lóðarhafar vilji hefja framkvæmdir eins fljótt og auðið er. Byggingafélagið Kaldalón, sem er í eigu Kviku banka og einkafjárfesta, keypti nýverið reitinn af félaginu K. Steindórsson ehf., sem er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Jóhanns G. Jóhannssonar, að því er kom fram í Fréttablaðinu í vor. 

 

Heimild: Visir.is