Munck hefur tapað nærri fjórum milljörðum króna á tveggja ára starfsemi á Íslandi. Draga á úr umsvifum á Íslandi vegna þessa.
Verktakafyrirtækið Munck á Íslandi ehf. tapaði 2,4 milljörðum króna á síðasta rekstrarári sem náði frá október 2017 til september 2018.
Eigið fé var neikvætt um 381 milljón króna í lok september 2018 en var jákvætt um 768 milljónir árið áður. Handbært fé félagsins lækkaði úr 215 milljónum króna í 43 milljónir króna á milli ára.
Danska félagið Munck Gruppen A/S í Danmörku keypti verkatakafyrirtækið LNS Sögu í desember 2016 og breytti nafni þess í Munck á Íslandi.
Uppsafnað tap félagsins frá því Munck tók reksturinn yfir í ársbyrjun 2017 til septemberloka 2018 nemur 3,7 milljörðum króna en tap ársins 2016 nam 223 milljónum króna.
Í samstæðureikningi danska móðurfélagsins segir að afkoma félagsins sé óásættanleg. Undanfarin tvö ár hafi þurft að færa niður bókfært virði verkefna sem það tók yfir við kaupin á LNS Sögu. Þá hafi félagið boðið of lágt í verkefni í útboðum hér á landi þar sem eigin greining á íslenskum efnahagsmálum hafi ekki verið fullnægjandi.
Félagið hafi gripið til aðgerða eftir lok reikningsársins til að laga stöðuna. Á þessu ári hyggist félagið leggja áherslu á að klára verkefni frekar en að taka að sér ný. Félagið búist engu síður við minniháttar taprekstri hér á landi á árinu.
Ásgeir Loftsson lét af störfum sem forstjóri félagsins haustið 2018 og þá tók Jón Björnsson aðstoðarforstjóri tímabundið við starfinu. Hans Christian Munck, eigandi samstæðunnar, tók svo sjálfur við sem forstjóri íslenska félagsins undir lok síðasta árs.
Í viðtali við Morgunblaðið í byrjun ársins sagði Hans Christian Munck að félagið hafi skort fé en það myndi halda áfram með öll verkefni og hefði stjórn á stöðunni.
Tapið á Íslandi veldur samstæðutapi
Tap samstæðunnar Munck Gruppen AS í Danmörku á síðasta rekstrarsári nam 147 milljónum danskra króna, um 2,7 milljörðum íslenskra króna.Hagnaður rekstrarársins 2016/2017 nam hálfum milljarði íslenskra króna.
Í ársreikningnum segir að hagnaður hafi verið af starfsemi félagsins í Danmörku reikningsárið 2017/2018 en tapið sé fyrst og fremst vegna taps íslenska dótturfélagsins. Búist sé við hagnaði hjá samstæðunni á þessu reikningsári þrátt fyrir tap á Íslandi.
Eigið fé danska móðurfélagsins nam níu milljörðum íslenskra króna í lok september. Handbært fé þess nam 800 milljónum króna en var neikvætt um 150 milljónir íslenskra króna ári áður.
Heimild: Vb.is