Home Fréttir Í fréttum Endurbætur á Blöndubrú ganga vel

Endurbætur á Blöndubrú ganga vel

127
0
Mynd: Vegagerðin

Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar frá Hvammstanga er í óða önn að endurbæta brúnna yfir Blöndu við Blönduós. Brúin var byggð árið 1962 og því nokkuð komin til ára sinna.
Endurbætur á brúnni hófust árið 2016.

<>

„Brúin var miklu verr á sig komin en við áttum von á þegar við byrjuðum viðgerð hennar,“ segir Sigurður Hallur Sigurðsson brúarsmiður.

Því var tekin ákvörðun að skipta verkinu niður í tvo hluta. „2016 tókum við akbrautina og útkantinn ofanstraums en skildum gönguleiðina og allt neðanstraums eftir.“

Viðgerðin á brúnni í ár hófst 1. júlí en áætluð verklok eru 20. október. „Þetta er heilmikil aðgerð. Við erum búnir að brjóta gangstéttina sem var steypt 1990. Síðan hengjum við verkpalla undir brúnna og brjótum útkanta af með vatnsbroti, en þeir eru 1,40 m á breidd.

Við breytum aðeins þversniðinu á brúnni og setjum svo upp vegrið sem uppfylla öryggisstaðla milli gangbrautar og akbrautar og setjum að lokum nýtt gönguhandrið á göngubrúnna.“

Sigurður Hallur segir umferðina hafa gengið mjög vel þrátt fyrir framkvæmdirnar. „Ökumenn hafa sýnt mikla tillitssemi og bæjarbúar hafa verið alveg upp á tíu,“ segir hann glaðlega en ljósastýring er á brúnni meðan framkvæmdir standa yfir enda akbrautin einbreið. Vinnuaðstæður brúarsmiðanna eru dálítið erfiðar vegna þrengsla og mikið hefur þurft að vinna með höndum.

Þegar viðgerðunum verður lokið í október verður Blöndubrú komin í mjög gott stand að mati Sigurðar Halls. „Hún ætti að duga í fimmtíu til sextíu ár. Undirstöðurnar eru góðar og við létum skanna kaplana sem bera uppi brúnna og þeir eru í góðu lagi.“

Heimild: Vegagerðin