Hæstiréttur dæmdi í dag Vaðlaheiðargöng hf. til að greiða verktakanum Ósafli hf. rúmar 37 milljónir króna vegna 1,2% lækkunar á efnisgjaldi sem samið var um eftir að virðisaukaskattur var lækkaður.
Virðisaukaskattur á Íslandi var lækkaður úr 25,5% í 24% í upphafi árs 2015 og fóru Vaðlaheiðargöng þess á leit við verktakann, Ósafl, að umsamið einingarverð, sem hafði verið fastsett með virkisaukaskatti, skyldi lækkað sem því nemur.
Fyrir dómi gekkst Ósafl við því að Vaðlaheiðargöngum hefði verið heimilt að krefjast lækkunar einingarverðsins, en að sú lækkun skyldi endurspegla raunverulega lækkun á innkaupsverði, sem væri minni.
Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að heildaráhrif skattbreytinganna hefðu numið tæpum 14 milljónum til hags fyrir Ósafl, en sú lækkun einingarverðs sem Vaðlaheiðargöng hf. hefðu krafið fyrirtækið um nam um 51 milljón króna.
Voru Vaðlaheiðargöng því dæmd til að endurgreiða Ósafli mismuninn, rúmar 37 milljónir króna, en kröfum Ósafls um vexti á þá upphæð var vísað frá.
Þá fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti og Landsrétti á ríkissjóð.
Er þetta þriðja ólíka niðurstaðan sem fæst í dómsmálið á dómstigunum þremur, en í héraðsdómi höfðu Vaðlaheiðargöng verið dæmd til að endurgreiða alla lækkunina, 51 milljón króna.
Landsréttur sýknaði hins vegar Vaðlaheiðargöng, áður en Hæstiréttur fann milliveginn, endurgreiða skyldi 37 milljónir króna.
Heimild: Mbl.is