Nú sér fyrir endann á vegagerð við Dettifossveg sem staðið hefur yfir með hléum frá árinu 2009. Til stendur að byggja upp síðasta haftið í sumar og haust.
Síðari hluti verksins fer í útboð eftir helgi.
Vonir standa til þess að Dettifossvegur verði orðinn uppbyggður og fær öllum bílum fyrir veturinn. Malbikun verður þó ekki lokið og frágangur á afleggjurum og plönum við vinsæla áningastaði bíður næsta árs og þess þarnæsta.
Þetta segir Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á norðursvæði.
Vegagerðin stefnir að því að afhenda útboðsgögn vegna síðasta áfanga Dettifossvegar strax eftir helgi.
Undir í síðasta áfanga verksins eru 11,5 kílómetrar af umræddum Dettifossvegi, auk þess sem annað eins þarf að byggja upp af afleggjurum og bílaplönum við veginn.
Eins og sakir standa eru fjórir kílómetrar af Dettifossvegi niðurgrafinn moldar- eða malarvegur, sem ófær er stærstan hluta ársins.
Vegagerð er lokið frá Ásbyrgi upp að Hljóðaklettum og frá Grímsstöðum á Fjöllum niður að Dettifossi. Leiðin á milli Dettifoss og Hljóðakletta er eftir að hluta.
Gunnar Helgi segir að áætlað sé að tæplega einn og hálfur milljarður nægi til að ljúka því verki sem eftir stendur. „Við stillum dæminu þannig upp að þetta verði þriggja ára verkefni og klárist árið 2021.
Það ár verður aðallega unnið að frágangi verksins,“ útskýrir hann.
Tilkoma uppbyggðs Dettifossvegar, sem tengir Öxarfjörð við Mývatnssveit og Austurland, getur haft mikil áhrif á samfélagið, ekki síst ferðamannaiðnað.
Hingað til hafa ferðamenn sem vilja skoða Ásbyrgi, Hljóðakletta eða Melrakkasléttu, svo dæmi séu tekin, þurft að fara í gegn um Húsavík til að komast austur.
„Draumurinn núna er að ná að tengja í haust,“ segir Gunnar Helgi um vegagerðina á þessu ári. „Hann verður ekki kominn með bundið slitlag en vonir standa til að þessir fjórir kílómetrar verði orðnir þannig að hægt sé að fara veginn,“ segir hann.
Hann bendir þó á að ekki liggi fyrir hvernig vegurinn verði þjónustaður af hálfu Vegagerðarinnar; í hvaða þjónustuflokki hann verður með tilliti til vetrarþjónustu.
„Það er full ástæða til að menn leiði hugann að því,“ segir hann og bætir við að menn hljóti að vilja að þessi fjárfesting sem ráðist hefur verið í nýtist allt árið.
Dettifossvegur er um 20 kílómetrar að lengd. Til viðbótar eru vegakaflar af veginum niður að Dettifossi, niður í Hólmatungur og Vesturdal, þar sem Hljóðaklettar eru.
Samtals eru þessir vegakaflar um 12 kílómetrar. Hann bendir á að heildarfjárfestingin í tengslum við Dettifossveg séu rúmir fjórir milljarðar, gróft áætlað.
Útboðsferlið er að sögn Gunnars þannig að frá mánudeginum, þegar gögnunum verður skilað, hafa menn tvær vikur til að gera tilboð. Þau verða svo opnuð og í kjölfarið þarf að líða ákveðinn kærufestur – sem er vika.
Að svo búnu verður að sögn Gunnars sest niður með þeim sem á hagstæðasta boðið. Kanna þarf í kjölfarið hvort hann uppfylli öll skilyrði sem sett eru. „Ég á ekki von á því að tæki verði farin að hreyfast fyrr en um miðjan júlí.“
Sex hundruð milljónir eru eyrnamerktar verkefninu í ár en 630 á næsta ári. Tvö hundruð milljónir eru svo ætlaðar í frágang árið 2021. „Þetta gera samtals 1.430 milljónir. Það á að nægja fyrir þessu.“
Framkvæmdir við Dettifossveg hófust 2009
Heimild: Frettabladid.is