Vinningstillaga um nýtt skipulag á Orkuhúsreitinum gerir ráð fyrir 450 íbúðum og atvinnustarfsemi.
Tillaga arkitektastofunnar Alark arkitektar bar sigur úr bítum í samkeppni um nýtt skipulag á Orkuhúsreitnum.
Gert er ráð fyrir 450 íbúðum í tillögunni og að uppbyggingin verði í fjórum áföngum, að því er fram kemur í tilkynningu um úrsliti samkeppninnar.
Byggingarnar verða á 4-9 hæðum og munu mynda randbyggð með sólríkum og skjólgóðum inngörðum sem eru að hluta til opnir og tengdir saman með göngu- og hjólastígum þar sem Orkuhúsið fær ákveðinn virðingarsess.
Þrjár arkitektastofur, Alark arkitektar, Trípólí og Yrki arkitektar, voru fengnar til að vinna hugmyndir á grundvelli forsagnar fyrir svæðið.
Tillögurnar voru ólíkar og höfðu allar að geyma áhugaverðar hugmyndir sem vert er að skoða nánar í framhaldsvinnu við breytingar á deiliskipulagi.
Í umsögn dómnefndar segir að tillaga Alark uppfylli meginmarkmið samkeppninnar vel og skipulagshugmyndin sé bæði skýr og vel fram sett.
Samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir að framkvæmdir á lóðinni geti hafist innan tveggja ára frá því að breyting á deiliskipulagi hefur verið samþykkt.
Heimild: Vb.is