Home Fréttir Í fréttum Stærsta fasteignaþróunarverkefni á Suðurlandi

Stærsta fasteignaþróunarverkefni á Suðurlandi

479
0
Við undirrituninGrétar Ingi Erlendsson, Þorlákur Ómar Einarsson, Elliði Vignisson, Gísli Steinar Gíslason og Jón Helgi Sen Erlendsson. Mynd: Hafnarfrettir.is

Nú fyrir skömmu undirrituðu þeir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og Gísli Steinar Gíslason, fyrir hönd Hamrakór, samkomulag um fasteignaþróun í sveitarfélaginu Ölfusi.

<>

Um er að ræða stærsta fasteignaþróunarverkefni á suðurlandi í dag og eitt hið stærsta á landinu öllu. Heildarfjárfesting á svæðinu hleypur a.m.k. á annan tug milljarða.

Með samkomulaginu sem gildir til 10 ára hyggjast sveitarfélagið Ölfus og Hamrakór ráðast í samstarf um skipulag á allt að 12 hektara svæði, auk gatnagerðar og annars sem til þarf til að hægt verði að ráðast í framkvæmdir þannig að á svæðinu rísi eftirsóknarverð, hagkvæm og aðlaðandi byggð sem styrki Ölfus í sessi sem eftirsóknarverðan búsetukost.

„Ölfus er í okkar huga eitt af mest lofandi vaxtarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu. Þar fer saman mjög sterk innviðir sem státar af óviðjafnanlegri íþróttaaðstöðu, frábærum skólum, ríkri menningarhefð og traustum bæjaranda.

Eftir að hafa ráðist í framkvæmdir á Edenreitnum í Hveragerði vitum við sem er að þessi svæði búa yfir öllum kostum þess að vera úthverfi Reykjavíkur án þess að missa þá ótvíræðu kosti sem fylgja því að búa í litlu og nánu samfélagi þar sem allir þekkja alla og standa saman þegar þörf er á. Hjá okkur er því mikil vænting hvað þetta verkefni varðar,“ segir Gísli Steinar.

Svæðið sem liggur miðsvæðis í Þorlákshöfn er í nágrenni við íþróttamannvirki, leik- og útivistarsvæði, grunnskóla, leikskóla, bóksafn og fl. Sérstök áhersla verður lögð á að þar rísi hagkvæm og umhverfisvæn byggð sem mætir þörfum einstaklinga og fjölskyldna sem vilja nýta kosti höfuðborgarsvæðisins samhliða þeim gæðum sem fylgja því að búa í nánu samfélagi með mikla þjónustu.

Þar verður hægt að byggja allt að fjögur til fimmhundruð íbúðir allt eftir því hvað markaðurinn kallar eftir.

„Hér í Ölfusi eigum við ómæld tækifæri á mörgum sviðum og erum óhrædd við að nýta þau. Í viðbót við þau vaxtartækifæri sem við eigum í þróun atvinnutækifæra tengd höfninni, orkunni, vatninu og landgæðum þá verður ekki hjá því horft að búsetulega erum við í raun úthverfi Reykjavíkur.

Það tekur ekki nema rétt liðlega 30 mínútur að aka á milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar og því auðvelt fyrir fólk að njóta samhliða þeirra kosta sem fylgja höfuðborginni og þeirra miklu búsetugæða sem hjá okkur eru,“ segir Elliði Vignisson í fréttatilkynningu til fjölmiðla.

Elliði segir samkomulagið við Hamrakór mikilvægt skref fyrir áframhaldandi vöxt sveitarfélagsins. „Þessir aðilar hafa sýnt að þeir eru meðal þeirra fremstu á landinu þegar kemur að fasteignaþróun.

Trú þeirra á tækifærin hjá okkur eru ekki hvað síst viðurkenning á því sem við viljum standa fyrir, sem sagt tækifæri til vaxtar. Hamingjan er hér, og við viljum gera sem flestum mögulegt að njóta hennar.“
Gangi áætlanir eftir verður hægt að hefja markvissan undirbúning núna á vordögum og verklegar framkvæmdir í beinu framhaldi.

Heimild: Hafnarfrettir.is