Home Fréttir Í fréttum Mega ekki semja við lægstbjóðendur um tvöföldun Reykjanesbrautar

Mega ekki semja við lægstbjóðendur um tvöföldun Reykjanesbrautar

496
0
Frá Reykjanesbraut. Mynd: Vísir/Vilhelm

Vegagerðin ákvað á dögunum að ganga ekki til samninga við lægstbjóðendur um tvöföldun á 3,2 kílómetra kafla Reykjanesbrautar í Hafnarfirði milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar.

<>

Lægstbjóðendur, verktakafyrirtækin Ellert Skúlason ehf., Borgarvirki ehf. og GT Verktakar ehf. stóðust ekki kröfur útboðsskilmála um að hafa unnið verk að ákveðinni stærðargráðu.

Tilboð fyrirtækjanna hljóðaði upp á 1.864.234.693 krónur sem er um 91% af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Kröfur Vegagerðarinnar eru á þann veg að fyrirtæki verða að hafa unnið verkefni sem eru að stærðargráðu frá 40% – 60% af tilboði bjóðenda í viðkomandi verk á síðastliðnum 7 árum, en hlutfallstölurnar ráðast af eðli verka og ákvörðun Vegagerðarinnar hverju sinni.

Þá kröfu stóðust fyrirtækin þrjú ekki samkvæmt svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Suðurnes.net.,

“Lægstbjóðandi stóðst ekki kröfur um að hafa unnið við verk að ákveðinni stærð. Standist maður ekki skilmála útboðs megum við ekki semja við viðkomandi.” Sagði G. Pétur Mattíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í svarinu.

Aðspurður um hvort væri að ræða sveigjanlegar vinnureglur Vegagerðarinnar, sagði G. Pétur svo ekki vera, “það eru ekki innanhúsreglur heldur skilyrði í útboðinu sjálfu og hefur verið svo um árabil.”

Vegagerðin mun í framhaldinu ganga til samninga við Ístak, sem átti næst lægsta tilboðið, 2.106.193.937 krónur, eða tæplega 250 milljónum króna hærra tilboð en verktakafyrirtækin þrjú sem buðu lægst.

 

Heimild: Suðurnes.net