Home Fréttir Í fréttum Hafnargerð í Finnafirði gæti orðið stærsta verkefni Íslandssögunnar

Hafnargerð í Finnafirði gæti orðið stærsta verkefni Íslandssögunnar

363
0
Viðlegukantar í Finnafirði yrðu sex kílómetra langir. Mynd: Grafík/Efla

Stórskipahöfn í Finnafirði gæti orðið stærsta verkefni Íslandssögunnar, í rúmmetrum talið, að mati sveitarstjóra Langanesbyggðar. Samningar um stofnun þróunarfélags um risahöfnina voru undirritaðir á Þórshöfn í dag. Myndskeið af fyrirhuguðum mannvirkjum var sýnt í fréttum Stöðvar 2.

<>

Það var stór dagur á Þórshöfn en þar komu saman í blíðviðri við höfnina fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska hafnarfélagsins Bremenports og verkfræðistofunnar Eflu. Tilefnið var undirritun samninga um stofnun þróunarfélags um uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar í Finnafirði.

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, líkir þessu við að komin sé kennitala á hugmyndina.

„Það er ekki þar með sagt að það verði af henni. En líkurnar hafa aukist töluvert mikið,“ segir Elías.

Þýska félagið Bremenports leiðir verkefnið með 66 prósenta hlut í þróunarfélaginu. Efla er með 26 prósenta hlut og sveitarfélögin Vopnafjörður og Langanesbyggð saman með 8 prósent.

Bremenports hefur á undanförnum árum varið nokkur hundruð milljónum króna til að kanna aðstæður í Finnafirði. Niðurstaðan er að svæðið henti einstaklega vel til hafnargerðar.

Það að eitt stærsta hafnarfyrirtæki Evrópu verji þannig háum fjárhæðum til undirbúningsrannsókna þykir sterk vísbending um að menn, sem ætla má að hafi þekkingu á alþjóðlegum siglingum, telji þetta raunhæfan kost.

Verkfræðistofan Efla hefur látið gera myndband af því hvernig mannvirkin gætu litið út. Hugmyndin gengur út á að þarna yrði umskipunarhöfn vegna siglinga um norðurskautið og höfnin myndi þannig tengja Asíu við austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu.

Viðræður eru í gangi um aðkomu erlends fjárfestingasjóðs að félaginu síðar á árinu. Sveitarstjóri Langanesbyggðar segist þó vilja fara varlega í yfirlýsingum um hvenær framkvæmdir gætu hafist.

„En áætlanir gera samt ráð fyrir að innan fimm ára gæti eitthvað farið að gerast,“ segir Elías.

Einhverjum árum seinna gætu svo fyrstu skipin farið að leggjast upp að einhverjum hinna sex kílómetra löngu bryggjukanta.

Ljóst er að þetta yrði risavaxið verkefni.

„Mælt í rúmmetrum, eða einhverju svona sem ég þekki, þá er þetta stærsta verkefni Íslandssögunnar.“

-Það er ekkert minna?

„Nei. Ef maður ætlar að mæla það í tilflutningi á jarðvegi, eða einhverju þessháttar.

Þar af leiðandi hlýtur þetta að vera, ef þetta fer af stað, og ef þetta allt klárast, sem er áratugaverkefni, þá er þetta gríðarlega stórt,“ segir Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar.

Heimild: Visir.is