Home Fréttir Í fréttum Tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi

Tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi

313
0

Vegagerðin í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ og veitufyrirtæki bauð nýlega út tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót og tengd verk sem snúa að breytingum á lögnum veitufyrirtækja.

<>

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist nú í vor og ljúki seint haustið 2020.

Markmið framkvæmda er að:

  • Auka umferðaröryggi og akstursþægindi með aðskilnaði akstursstefna með miðeyju  og vegriði.
  • Bæta umferðarflæði og umferðarrýmd með tveimur akreinum í hvora átt.
  • Bæta hljóðvist í nærliggjandi umhverfi með hljóðvörnum.
  • Bæta samgöngur milli hverfa fyrir gangandi og hjólandi umferð með tveimur nýjum göngubrúm.
Yfirlitsmynd af framkvæmd

Tvöföldun á 3,2 kílómetra kafla
Um er að ræða tvöföldun á 3,2 km kafla frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót þar sem ný akbraut sunnan núverandi vegar verður byggð. Brautin verður aðskilin með 3 m breiðri miðeyju milli akbrauta með vegriðum báðum megin.

Akbrautin verður grafin niður um allt að 4 m á tveimur köflum frá núverandi göngubrú við Ásland og að Strandgötu og gegnum Hvaleyrarholtið frá Þorlákstúni og vestur fyrir nýju undirgöngin við Suðurbraut. Hluti framkvæmda er að breikka brúna yfir Strandgötu.

Aðgerðir til að minnka umferðarhávaða
Samhliða breikkun Reykjanesbrautar verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að minnka umferðarhávaða í nágrenni brautarinnar og uppfylla reglugerðir um hljóðvist. Ný hljóðmön verður gerð milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar á móts við Erluás og verður göngustígurinn frá enda núverandi göngubrú endurgerður.

Hljóðmönin við Ásbraut á móts við Álftaás verður hækkuð. Núverandi hljóðmanir við Hvamma verða endurgerðar og næst brautinni verða notuð jarðvegshólf til að ná fram betri hljóðvist.

Við Suðurhvamm eru einnig reistir hljóðveggir ofan á mön sem ná inn á Strandgötu og hljóðveggur settur á norðurkant Strandgötubrúar. Þá verður girðing úr timbri meðfram Þúfutúni skipt út fyrir hljóðvegg.

Á Þorlákstúni verða gerðar hljóðvarnir. Austast verða háar manir með jarðvegshólfum en á vestari hlutanum verður gerð hefðbundin jarðvegsmön. Loks verða staðbundnar varnir gerðar við tengistöð HS veitna á móts við Suðurholt.

Bættar samgöngur milli hverfa fyrir gangandi og hjólandi umferð
Samgöngur milli hverfa fyrir gangandi og hjólandi umferð verða bættar og gerðar öruggari með nýjum göngubrúm yfir Reykjanesbraut. Ný brú verður milli Hvamma og Áslands á móts við Álftaás. ,

Núverandi undirgöng við Þorlákstún verða fjarlægð og brú kemur í staðinn. Stígahönnun miðar að bættu aðgengi fyrir alla. Áður en vega- og brúargerð hefst munu veitufyrirtæki hafa að mestu lokið við að færa lagnir. Um er að ræða háspennustrengi, fjarskiptalagnir, vatns- og hitaveitulagnir.

Opnuð hefur verið upplýsingasíða vegna framkvæmda við tvöföldun Reykjanesbrautar – þar má finna öllu helst gögn varðandi framkvæmdirnar og verður meira efni bætt við síðuna þegar fram líða stundir.

Heimild: Hafnarfjörður.is