Home Fréttir Í fréttum Tæpir 112 milljarðar til samönguverkefna til ársins 2018

Tæpir 112 milljarðar til samönguverkefna til ársins 2018

95
0

Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun áranna 2015 til 2018. Á þessu tímabili er gert ráð fyrir að tæpum 112 milljörðum króna verði varið til verkefna á öllum sviðum samgangna og að framlög til þeirra aukist um 3% árlega árin 2016 til 2018 í samræmi við hagvaxtarspár. Ráðherra sagði í ræðu sinni að óskandi hefði verið að hefja fleiri verkefni á tímabilinu en hún sagði tillöguna byggjast á raunsæi og fyrirhyggju þar sem fjármunir væru takmarkaðir.

<>

Umræða um samgönguáætlun stóð á Alþingi frá hádegi og fram eftir degi og tóku margir þingmenn til máls í umræðunni. Í lok umræðunnar svaraði ráðherra ýmsum spurningum sem fram komu í ræðum þingmanna og gengur málið síðan til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd

Meðal þess sem innanríkisráðherra dró fram í framsöguræðu sinni var að samgöngukerfið væri ein af grundvallarforsendum öflugs atvinnulífs og búsetugæða. Líta ætti á kerfið sem eina heild hvort sem um væri að ræða samgöngur á landi, lofti eða á sjó. Þrátt fyrir að líta ætti á samgöngukerfið sem eina heild yrði að horfa til þess að verkefni á landsvæðum sem byggju við lakastar samgöngur yrðu að njóta ákveðins forgangs. Þá lagði ráðherra áherslu á mikilvægi öryggis í öllum greinum samgangna, ekki síst í umferðinni, sem væri mikilvægt vegna aukins umferðarþunga samfara vaxandi fjölda ferðamanna.

Minni losun gróðurhúsalofttegunda með tækniframförum

Ráðherra gerði einnig umhverfismál samgönguáætlunar að umtalsefni og sagði brýnt að leggja áherslu á fjölbreytta valkosti til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

,,Samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum okkar í loftslagsmálum þarf að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020. Þar er sjónum ekki hvað síst beint að samgöngum sem í dag losa um 38% af heildarlosun landsins. Áhrifaríkustu leiðirnar til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum eru tækniframfarir – þróun sparneytnari og hentugri farartækja bæði á landi og sjó sem og áhersla á orkuskipti og fjölbreyttari ferðamáta. Því er áfram stutt við framkvæmdir og verkefni sem stuðla að orkusparnaði, notkun umhverfisvænni orkugjafa og styðja frumkvæði sem stuðlar að notkun innlendra orkugjafa í samgöngum svo sem rafmagns,“ sagði ráðherra meðal annars. Auk þessa sagði ráðherra mikilvægt að leita nýrra leiða við fjármögnun framkvæmda til að geta komið af stað arðbærum verkefnum sem skila myndu þjóðhagslegum bata og benti ráðherra til dæmis á að Sundabraut væri nú komin aftur inn á samgönguáætlun.

Innanríkisráðherra minnti á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar síðastliðinn þriðjudag að veita 1.800 milljónum til brýnna verkefna í vegagerð og sagði hún þá upphæð utan samgönguáætlunar. Yrði 1.300 milljónum varið til framkvæmda á vegarköflum við Dettifossveg, Kjósarskarðsveg, Uxahryggi og Kaldadal og um 500 milljónum króna yrði varið til viðhalds á ákveðnum köflun Hringvegarins og á götum á höfuðborgarsvæðinu eftir nánara mati Vegagerðarinnar.

Vegamál

Heildarframlag til vegamála eru um 95 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir um 24 milljörðum í viðhald og tæpum 38 milljörðum í framkvæmdir við stofn- og tengivegi, þar af fara um 14 milljarðar til jarðgangnagerðar.

Stærstu framkvæmdir á tímabilinu eru gerð Norðfjarðarganga sem verða opnuð á tímabilinu, breikkun vegar um Hellisheiði og áfram milli Hveragerðis og Selfoss, Álftanesvegur og Arnarnesvegur, Vestfjarðavegur milli Eiðis í Vatnsfirði og Kjálkafjarðar og um Gufudalssveit, Bjarnarfjarðarháls, Reykjanesbraut sunnan Hafnarfjarðarvegar, Hringvegur um Hornafjarðarfljót, hluti Strandavegar, Dettifossvegur, Hringvegur í Berufjarðarbotni auk fjölda smærri verka.  Þá bætast við vegna framkvæmdir á þessu ári við Uxahryggi og tenging við Þingvelli um Kaldadal, auk Kjósarskarðsvegar og hluta af Dettifossvegi vegna viðbótarframlags ríkisstjórnarinnar.

Lagt er til að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjist árið 2017. Rannsóknum vegna Fjarðarheiðarganga verður fram haldið. Reiknað er með fjármagni til hafnarframkvæmda ásamt veg- og jarðgangatengingum á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík en verkefnið er vistað í samgönguáætlun þótt forræði þess sé á hendi atvinnuvegarráðuneytisins. Einnig ber að geta þess að Sundabraut kemur nú aftur inn á áætlun en hugað er að fjármögnun hennar verði með þátttöku einkaaðila.

Á höfuðborgarsvæðinu á að bæta umferðarflæði með ýmsum verkefnum sem ætlað er að útrýma flöskuhálsum, bæta forgang almenningssamgangna með fleiri sérakreinum og auka umferðaröryggi, einkum með uppsetningu vegriða. Í síðustu áætlun voru sett markmið um sjálfbærar samgöngur og að fjölga valkostum um ferðamáta í þéttbýli m.a. með framlögum til almenningssamgangna, göngu- og hjólastíga. Í gildi er samningur milli ríkis og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins sem skrifað var undir í maí 2012. Verkefnið er til tíu ára og er markmið þess m.a. að tvöfalda hlutdeild almenningssamganga í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu á samningstímanum.  Einnig á að vinna að lækkun á samgöngukostnaði heimila og samfélagsins vegna umferðar og umferðarslysa og fleira.

Hafnamál

Til hafnamála verður alls varið um 6 miljörðum króna. Stærsti útgjaldaliður þessa hluta áætlunarinnar er sem fyrr Landeyjahöfn. Alls er gert ráð fyrir að 1,3 milljörðum króna verði varið til framkvæmda við höfnina á tímabilinu, m.a. til rannsókna og framkvæmda sem eiga að draga úr sandburði til frambúðar, til árlegrar dýpkunar og uppgræðslu við hafnarsvæðið. Þá ber þess að geta að hönnun nýrrar Vestmannaeyjarferju er nú lokið og er verkið tilbúið í útboð. Loks verða töluverðar framkvæmdir við Húsavíkurhöfn tengdar uppbyggingu á Bakka en 471 milljón króna verður varið til þeirra.

Flugmál

Flugvellirnir eru reknir í tveimur aðskildum kerfum. Í öðru kerfinu er Keflavíkurflugvöllur sem heyrir undir evrópskar ríkisstyrkja- og samkeppnisreglur. Keflavíkurflugvöllur er sjálfbær og standa þjónustugjöld undir rekstri flugvallar og flugstöðvar, að undanskilinni þjónustu við ríkisflug og hluta af vopnaleit. Í hinu kerfinu er allir aðrir flugvellir og lendingarstaðir. Alls er áætlunarflug til 11 áfangastaða frá Reykjavík, þar af njóta 6 flugleiðir beinna ríkisstyrkja en hinar eru reknar á markaðslegum forsendum.

Allt viðhald, framkvæmdir og 2/3 af rekstrarkostnaði í innanlandskerfinu eru fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði samkvæmt þjónustusamningi ríkisins við Isavia og nemur upphæð hans um 8,8 milljörðum króna. Aðrar tekjur, svo sem lendingargjöld og farþegagjöld standa undir því sem upp á vantar eða 1/3 af rekstarkostnaði. Af 8,8 milljarða framlagi ríkisins fara ¾ í rekstur en fjórðungur til viðhalds og framkvæmda eða um 600 m.kr. á ár og fer langstærstur hluti þess til viðhalds flugbrauta og búnaðar á alþjóðaflugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík, rúmur einn og hálfur milljarður, 829 m.kr. fara til annarra flugvalla í grunneti og loks 50 m.kr. til annarra flugvalla og lendingarstaða.

Undanfarin ár hafa fjárframlög ríkisins til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu verið skorin mikið niður. Árleg fjárþörf til viðhalds og framkvæmda er um 5-600 m.kr. í innanlandskerfi. Til að mæta uppsöfnuðum skorti á viðhaldi og framkvæmdum er þörf á allt að einum milljarði árlega næstu árin. Það dugar þó ekki fyrir stærri framkvæmdum svo sem flughlöðum á Akureyri og Egilsstöðum. Unnið er að endurskoðun á ýmsum þáttum er lúta að innanlandsflugi og flugvallakerfi og aðkomu hins opinbera að því í starfshópum á vegum innanríkisráðuneytisins sem munu mynda grunn að stefnu í samgönguáætlun 2015-2026.

Heimild: Innanríkisráðuneyti