Home Fréttir Í fréttum Skoða íbúðir í stað Íslandsbankahússins

Skoða íbúðir í stað Íslandsbankahússins

374
0
Framkvæmdir standa nú yfir við byggingu Sjávarborgar, nýs 7.000 fermetra skrifstofuhúsnæðis á sex hæðum, við hlið fyrrverandi höfuðstöðva Íslandsbanka á Kirkjusandi. Mynd: Haraldur Guðjónsson /vb.is

Samstarf um deiliskipulag á lóð Íslandsbanka undir gömlu höfuðstöðvarnar á Kirkjusandi er hafið við borgina. Hugmyndir eru um blandað hverfi líkt og á Strætólóðinni, en þar rís nú einnig nýtt 7.000 fermetra skrifstofuhús, Sjávarborgin.

<>

Við hlið gömlu höfuðstöðva Íslandsbanka á Kirkjusandi rís nú sex hæða, 7 þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði, með kjallara sem fagfjárfestasjóðurinn 105 Miðborg hefur auglýst til sölu eða leigu.

Kjartan Smári Höskuldsson framkvæmdastjóri Íslandssjóða, þar sem sjóðurinn er í stýringu, segir húsið, sem fengið hefur nafnið Sjávarborg verða hið glæsilegasta, en í því verða skrifstofuhæðir frá 500 upp í 1.300 fermetrum, með útsýni út á hafið.

Afhending hússins er áætluð haustið 2020, en á baklóð þess munu verða íbúðir með matvöruverslun á jarðhæð. Einnig verða svo íbúðir á lóðinni vestan megin við Sjávarborgina, sem og handan nýrrar götu, Hallgerðargötu, þar sem borgin hefur úthlutað lóðum fyrir byggingarfélög sem þiggja stofnframlög úr Íbúðalánasjóði.

Samtals verða á þessum lóðum um 300 íbúðir, þar af 150 á þeim svæðum sem 105 Miðborg hefur nú til umráða. Loks segir Kjartan að borgin og Íslandsbanki séu komin í samstarf um að deiliskipuleggja lóðina upp á nýtt þar sem gömlu höfuðstöðvar bankans standa nú.

„Það þýðir að á endanum verður gamla frystihúsið, sem síðar urðu höfuðstöðvar Íslandsbanka, að öllum líkindum rifið, enda hafa rannsóknir á því sýnt að húsið er ónýtt vegna mygluskemmda. Það svarar ekki kostnaði að gera við það með fullnægjandi hætti, þannig að við getum verið örugg um að ekki verði mygla áfram, þar sem mygluskemmdirnar ná langt inn í steypu.

Það er nefnilega ekki bara klæðningin í húsinu sem er ónýt, burðarvirkið sjálft er orðið skemmt líka,“ segir Kjartan Smári sem segir að ekki sé búið að ákveða endanlega hvað komi í staðinn en það gæti orðið fleiri íbúðir.

„Nálgun okkar inn í þá vinnu er að skipulagt verði blandað hverfi sem sé í takt við það sem verður á öðrum lóðum á svæðinu sem nýlega hafa verið skipulagðar. Að þessi reitur verði í einhverju eðlilegu framhaldi af hinum reitunum.

Við erum að byggja þarna á svæðinu mjög fjölbreyttar stærðir íbúða, alveg niður undir 50 fermetra eins herbergja íbúðir, og svo nokkrar alveg yfir 200 fermetra íbúðir. Þessar stóru eru þá oftast annaðhvort á efri hæðum eða hornum húsanna.“

Heimilid: Vb.is