Home Fréttir Í fréttum Stefnir borginni vegna íbúðanna við Grensásveg 12

Stefnir borginni vegna íbúðanna við Grensásveg 12

229
0
Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Leiguafl slhf. hefur stefnt Reykjavíkurborg vegna ákvörðunar borgaryfirvalda um að rifta kaupum á 24 íbúðum við Grensásveg 12 fyrir 785 milljónir króna.

<>

Leiguafl krefst þess að fá kaupsamningsgreiðsluna. Borgin ætlar að gagnstefna Leiguafli til viðurkenningar á riftun kaupsamningsins.

Þetta kemur fram í svari sem lagt var fram á fundi borgarráðs í gær.
Borgin rifti kaupum á íbúðunum um miðjan desember en trúnaður var yfir þeirri þeirri ákvörðun þar til í byrjun þessa mánaðar.

Ástæða riftunarinnar var sögð vera tafir á afhendingu íbúðanna en þær áttu að vera tilbúnar í ágúst í fyrra.

Borgin fékk verkfræðistofuna Eflu til að leggja mat á stöðuna og niðurstaða þeirrar úttektar var að íbúðirnar yrðu ekki tilbúnar fyrr en í júní á þessu ári ef allt gengi upp.

Borgin taldi því óhjákvæmilegt að rifta kaupsamningi og gerði kröfu um að kaupsamningsgreiðsla upp á rúmar 78 milljónir yrði endurgreidd.

Framkvæmdirnar við Grensásveg rötuðu ítrekað í fréttir.

Í fréttaskýringaþættinum Kveik kom fram að þær væru „skólabókardæmi um ástandið eins og það gerist verst á íslenskum byggingamarkaði.“

Framkvæmdir hefðu hafist án þess að tilskilin leyfi væru til staðar, erlent starfsfólk snuðað um laun og vinnuaðstaðan óboðleg og allt að því stórhættuleg.

Starfsmenn höfðu meðal annars verið látnir fjarlægja asbest án nokkurs hlífðarbúnaðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir svari við því af hverju ákvæði um keðjuábyrgð hefði ekki verið sett inn í kaupsamninginn á sínum tíma.

Í svarinu sem lagt var fram á fundi borgarráðs í gær kemur fram að það hafi ekki verið hægt. Kaupin á íbúðunum hafi verið hefðbundin fasteignakaup og því hafi borgin ekki haft neina aðkomu að þeim samningum sem Leiguafl gerði við verktaka um nýsmíði og breytingar.

Ljóst sé að málið verði útkljáð fyrir dómstólum og því sé ekki tímabært að fram fari kynning á málefnum Grensásvegar.

Heimild:j Ruv.is