Home Fréttir Í fréttum Rúmlega fimm milljarða framkvæmd í Reykjanesbæ

Rúmlega fimm milljarða framkvæmd í Reykjanesbæ

269
0
Skjáskot af Rúv.is

Framkvæmdir eru hafnar við nýjan grunnskóla í Reykjanesbæ. Framkvæmdirnar eru þær umfangsmestu sem bærinn hefur ráðist í og áætlaður kostnaður er rúmir fimm milljarðar króna.

<>

Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað um þriðjung á nokkrum árum og nú er svo komið að bærinn er orðinn fjórða stærsta bæjarfélagið á Íslandi með tæplega 19.000 íbúa.

Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar var mjög slæm á árunum eftir hrun en samhliða fjölgun íbúa hafa tekjur aukist og fjárhagsstaðan batnað.

En þessari fjölgun fylgja vaxtarverkir, til dæmis þegar kemur að innviðum. Til þess að bregðast við mikilli fjölgun barna eru hafnar framkvæmdir við fyrsta áfanga Stapaskóla í Innri Njarðvík.

Auk grunnskóla verða í byggingunum leikskóli, íþróttahús, sundlaug, útibú frá tónlistarskólanum, félagsmiðstöð og bókasafn.

Með þessu eruð þið að bregðast við fjölgun íbúa?
„Já. Sérstaklega í þessu hverfi, Innri-Njarðvík, þar hefur vöxturinn verið hvað mestur undanfarið og það má segja að það séu teknar í notkun nýjar íbúðir daglega,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Til langrar framtíðar
Stapaskóli er umfangsmesta framkvæmd sem ráðist hefur verið í í Reykjanesbæ, samtals verða byggingarnar rúmlega 10.000 fermetrar, þar verður pláss fyrir um 600 nemendur og áætlaður kostnaður er rúmir fimm milljarðar króna.

Hafið þið efni á þessu?
„Þetta er mjög góð spurning. Við erum að byggja til langrar framtíðar. Svona hús þurfa að standast tímans tönn í tugi ára. Og það má vel vera að við höfum ekki efni á því núna akkúrat. En framkvæmdir eru hafnar og við sjáum fram á að þegar þessi skóli er búinn, það eru nokkur ár í að þessari framkvæmd ljúki, að þá verði hagurinn orðinn betri.“

Heilt yfir segir Kjartan að vel gangi að takast á við mikla fjölgun íbúa, mikið af íbúðarhúsnæði sé í byggingu á sama tíma og fasteignaverð hækkar.

„En eins og komið hefur fram í staðarfjölmiðlum og víðar, þá erum við ekki ánægð með viðbrögð ríkisins við þessari fjölgun, það er að segja hvað varðar ríkisstofnanir eins og heilbrigðisstofnun og fleiri slíkar, og höfum verið að ýta eftir alvöru viðbrögðum þaðan. Og það er helst þar sem skórinn kreppir.“

Heimild: Ruv.is