Home Fréttir Í fréttum Vegagerðin segir að framkvæmdum á Kjalarnesi seinki ekki

Vegagerðin segir að framkvæmdum á Kjalarnesi seinki ekki

135
0
Mynd: Stöð 2/Einar Árnason.

Framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes hefjast í haust og mun þeim ljúka á árinu 2022 eins og til hefur staðið.

<>

Þrátt fyrir tilfærslur á fjárveitingum í verkið milli ára mun verklokum ekki seinka. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Deiliskipulag vegarins um Kjalarnes, sem var samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, var staðfest sumarið 2018. Síðan hefur verkið verið í undirbúningi og stefnt er að því að bjóða út verkhönnunina á næstunni.

Verkið er sagt það viðamikið og stórt að talsverð vinna liggi í gerð útboðsgagna.

Í samgönguáætlun sem lögð var fyrir Alþingi í haust var gert ráð fyrir að samtals einum milljarði króna yrði varið til endurbóta á veginum á þessu og næsta ári.

Þessi fjárhæð hefur nú verið lækkuð um 600 milljónir króna, samkvæmt breytingartillögu, sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis lagði fram í síðustu viku, en þar er gert ráð fyrir 200 milljónum í veginn um Kjalarnes í ár og öðrum 200 milljónum á næsta ári.

Greiða fyrir Grindavíkurvegi
Vegkaflinn hefur verið töluvert til umfjöllunar en tvö banaslys urðu á veginum í fyrra. Vegamálastjóri sagði þjóðveginn hættulegan og brýnt væri að skilja að akstursstefnur.

Bæjarstjórn Akraness krafðist þess að samgönguyfirvöld brygðust tafarlaust við hættulegu ástandi vegarins og stóð fyrir íbúafundi um málið.

Í nefndaráliti meirihlutans í umhverfis- og samgöngunefnd var gefin sú skýring á lækkun næstu tvö árin að verkhönnun og samningum við landeigendur vegna verkefnisins væri ólokið.

Því væri ljóst að ekki yrði hægt að fara í það fyrr en í fyrsta lagi seint á árinu 2019. Landeigendur komu af fjöllum aðspurðir um hvar hnífurinn stæði í kúnni varðandi samskipti þeirra við Vegagerðina.

Vegagerðin segir í frétt sinni í dag að engin vandamál hafi komið upp gagnvart landeigendum né öðrum verkþáttum. Tilfærslu fjár megi rekja til hækkunar á kostnaðaráætlun fyrir framkvæmdir á Grindavíkurvegi þar sem skilja á akstursstefnur á árinu.

Til að unnt sé að tryggja að framkvæmdir geti hafist þarf að hækka fjárveitingu til verksins úr 500 millj. kr. í 700 millj. kr. Þeir fjármunir eru fluttir af fjárveitingu til framkvæmda á Hringvegi um Kjalarnes.

Vegagerðin segir að reikna megi með að í haust verði strax hafist handa við t.d. lagningu hliðarvega sem síðan munu nýtast til að beina umferðinni um þegar framkvæmdir verða í fullum gangi við sjálfa breikkun vegarins.

Heimild: Visir.is