Home Fréttir Í fréttum Göngin fóru fram úr áætlun um 1,7 milljarða

Göngin fóru fram úr áætlun um 1,7 milljarða

189
0
Mynd: Gaukur Hjartarson - RÚV

Heildarkostnaður ríkissjóðs við jarðgangagerð og vegagerð undir Húsavíkurhöfða vegna kísilvers PCC á Bakka var nærri tvöfalt meiri en áætlað hafði verið og nam á endanum 3,5 milljörðum króna.

<>

Áætlað hafði verið að kostnaðurinn yrði 1,8 milljarðar miðað við verðlag ársins 2012.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, frá 5. desember.

Svarið birtist á vefnum í gær.
Kostnaður ríkisins vegna lóðaframkvæmda og annar stofnkostnaður vegna kísilversins var 236 milljónir króna vegna þjálfunar starfsmanna og 460 milljónir vegna lóðarframkvæmda.

Kostnaður vegna undirbúnings lóðarinnar hafði verið áætlaður allt að 558 milljónir króna.

Kostnaður ríkissjóðs vegna framkvæmdanna nam þess vegna samtals 4,2 milljörðum króna.

Þá er ekki víst hvort 819 milljóna króna lán ríkissjóðs til hafnarsjóðs Húsavíkurhafnar fáist endurgreitt því óvíst er hvort arðsemi hafnarinnar dugi til að endurgreiða öll lán sem tekin voru vegna stækkunar hafnarinnar.

Lán ríkisins til hafnarsjóðs er víkjandi og kemur þess vegna ekki til greiðslu fyrr en öll önnur lán hafa verið greidd. PCC á Bakka fær 40 prósenta afslátt af hafnargjöldum í 14 ár frá undirritun fjárfestingarsamnings ríkisins og kísilversins.

Heimild: Ruv.is