Landsvirkjun mun á næstunni auglýsa útboð vegna fyllingar og neðra burðarlags syðri hluta Þeistareykjavegar, sem liggja mun frá Þeistareykjum að þjóðvegi á Hólasandi.
Á heimasíðu fyrirtækisins segir að með þessari vegtengingu komist á heilsársleið á milli Þeistareykja og Mývatnssveitar og mun vegurinn auðvelda samrekstur aflstöðva Landsvirkjunar á Norðausturlandi – Kröflustöðvar, Gufuaflsstöðvarinnar í Bjarnarflagi og Þeistareykjastöðvar.
Þá mun vegurinn einnig nýtast sem ný og spennandi ferðamannaleið milli Húsavíkur og Mývatnssveitar.
Með tilkomu vegararins styttist aksturstími milli Kröflu og Þeistareykja verulega og verður u.þ.b. 35 mínútur (48,9 km), miðað við 85 km meðalhraða á klukkustund. Sé ekið úr Reykjahlíð við Mývatn tekur aksturinn 25 mínútur (35,8 km), en núverandi aksturstími um Húsavík er 67 mínútur (94,3 km).
Landsvirkjun hefur á öllum tímum kappkostað að tryggja góðar samgöngur í tengslum við virkjanir og rekstur aflstöðva.
Í upphafi ferilsins við byggingu Búrfellsvirkjunar tók Landsvirkjun þátt í því að byggja upp Skeiðaveg frá þjóðvegi 1 og inn að Búrfelli.
Síðar byggði Landsvirkjun upp veg frá Búrfelli og inn að Þórisvatni og hefur lagt slitlag á veginn frá Búrfelli og að Vatnsfelli. Þá tók Landsvirkjun þátt í vegalagningu í tengslum við Blönduvirkjun. Í aðdraganda Kárahnjúkaverkefnisins tók Landsvirkjun þátt í að endurnýja brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal.
Landsvirkjun lagði Fljótsdalsheiðarveg sem er 58,5 km að lengd.
Ráðgert er að framkvæmdir við veginn hefjist nú í maímánuði og gerir verkáætlun ráð fyrir því að þeim ljúki um haustið 2021.
Heimild: 640.is