Home Fréttir Í fréttum Enn mun vanta 2000 íbúðir 2022

Enn mun vanta 2000 íbúðir 2022

131
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson /Vb.is

Átakshópur forsætisráðherra kemur með 40 tillögur til lausnar á húsnæðisvandanum, þ.m.t. að flýta uppbyggingu borgarlínu.

<>

Að mati átakshóps Katrínar Jakobsdóttur um aðgerðir til að auka framboð og bæta stöðu á íbúðarmarkaði sé nú óuppfyllt þörf íbúða á bilinu 5 til 8 þúsund íbúðir. Hins vegar stefnir í að byggðar verði 10 þúsund íbúðir til ársins 2021, en þær munu þó síst henta tekju- og eignalágum, enda fyrst og fremst byggðar þar sem fermetraverðið er hæst.

Árið 2022 mun enn vanta um 2000 íbúðir, og verður að mati hópsins að grípa til aðgerða til að auka framboð hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu veðri til leigu og eignar. Ekki síst vegna þess að þar sem fermetraverð er lægra virðist mest byggt af stærri og óhagkvæmari íbúðum.

Meðal tillagna hópsins til að ná þessum markmiðum er að skylda sveitarfélög til að taka 5% af skipulögðum lóðum til uppbyggingar á félagslegu leiguíbúðarhúsnæði, en einnig er rætt um að flýta uppbyggingu borgarlínu í þessu samhengi.

Auk þess verði sveitarfélögum heimilt að gera kröfu um að allt að fjórðungur byggingarmagns á nýju deiliskipulagi verði fyrir almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir, hvort sem eigandi landsins er sveitarfélagið sjálft, ríki eða einkaaðili.

Tillögurnar 40 sem hópurinn leggur fram eru settar fram í 7 flokkum:

1.Almennar íbúðir – Stækkun kerfisins með stofnframlögum og hærri tekjumörkum

2.Húsnæðisfélög – Stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög

3.Leiguvernd – Skýrari reglur á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði

4.Skipulags- og byggingarmál – Endurskoðun regluverks til einföldunar og rafvæðing stjórnsýslu

5.Samgönguinnviðir – Hraðari uppbygging samgönguinnviða og almenningsamgangna

6.Ríkislóðir – Ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir, þar á meðal fyrir leigumarkað

7.Upplýsingamiðlun – Samræmd söfnun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál

Átakshópurinn var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og hóf störf 5. desember sl. Hópinn skipuðu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar forsætis-, fjármála- og efnahags- og félagsmálaráðuneytis. Formenn hópsins voru Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Sex undirhópar störfuðu með hópnum á tímabilinu og fjölluðu um útfærslu afmarkaðra verkefna. Haft var samráð við mikinn fjölda stofnana, sveitarfélaga og hagsmunaaðila og tugir sérfræðinga komu með einum eða öðrum hætti að vinnu hópsins.

Heimild: Vb.is