Home Fréttir Í fréttum Vegur um Teigsskóg í mat á umhverfisáhrifum

Vegur um Teigsskóg í mat á umhverfisáhrifum

169
0

Vegagerðin hefur á undanförnum árum unnið að umhverfismati fyrir Vestfjarðaveg (60) um Reykhólahrepp sem er síðasti hluti vegarins um sunnanverða Vestfirði. Einn af þeim kostum sem hafa verið til skoðunar er veglína sem liggur um Teigsskóg, en henni var hafnað í umhverfismati 2006. Vegagerðin óskaði eftir því við Skipulagsstofnun í lok síðasta árs  að sú ákvörðun yrði tekin til endurskoðunar þar eð hönnuð hefði verið ný veglína um þennan kafla með mun minni umhverfisáhrifum en sú fyrri. Skipulagsstofnun hefur nú fallist á að verða við beiðni um endurupptöku á fyrri úrskurði og heimilað að leiðin um Teigsskóg verði tekin með í nýju umhverfismati Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp ásamt fleiri valkostum.

<>

Ákvörðun Skipulagsstofnunar byggist fyrst og fremst á þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að þær breytingar sem hafa verið gerðar á legu vegarins og þar með áhrifum á skóglendi, breytingar á fyrirkomulagi efnistöku, breyttar hönnunarforsendur og breytt hönnun á þverunum yfir Djúpafjörð og Gufufjörð, feli allt í sér veigamiklar breytingar sem skapi forsendur til að endurskoða umhverfismat framkvæmdarinnar. Sem dæmi er nefnt að skóglendi skerðist um 16 ha í stað 26 ha vegna legu vegarins auk þess sem dragi úr skerðingu um 17 ha með því að falla frá efnistöku í Teigsskógi. Jafnframt er fyrirhugað að græða upp 9 ha raskaðs skóglendis meðfram veginum með kjarri.

Vegagerðin mun nú í framhaldinu leggja fram tillögu að matsáætlun fyrir endurskoðað umhverfismat og verður það gert samkvæmt gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2000 með síðari breytingum. Í matsáætluninni verður gerð grein fyrir nokkrum valkostum sem lagðir verða fram til samanburðar m.t.t. umhverfisáhrifa, þ. á m. leiðinni um Teigsskóg. Samkvæmt matsferlinu fylgir síðan frummatsskýrsla og loks matsskýrsla. Ekki er á þessu stigi hægt að segja til um það með neinni nákvæmni hvaða tíma þetta ferli tekur, en safna þarf upplýsingum og útbúa margskonar gögn fyrir hvern þátt ferlisins. Vegagerðin vonast þó til að niðurstöður liggi fyrir og unnt verði að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar á fyrri hluta næsta árs.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðarvegar um Reykhólahrepp.

Heimild: Vegagerðin