Home Fréttir Í fréttum „Biggi bratti“ byggir gróðurhús í Hveragerði

„Biggi bratti“ byggir gróðurhús í Hveragerði

325
0
Birgir S. Birgisson, eða Biggi Bratti eins og hann er alltaf kallaður í nýja gróðurhúsinu í Hveragerði. Mynd: Magnús Hlynur/visir.is

Fyrsta gróðurhúsið sem hefur verið byggt í Hveragerði á síðustu tuttugu árum er nú í byggingu en þar verða ræktaðar pottaplöntur. Birgir S. Birgisson, eða Biggi bratti eins og hann er alltaf kallaður í Hveragerði, ræktar pottaplöntur og hefur gert það til fjölda ára með góðum árangri.

<>

„Þetta hús er 720 fermetrar og er sérhannað fyrir pottaplöntur og kemur frá Hollandi. Við vorum 21 dag að koma þessu húsi upp og loka því.“

Birgir vonast til að geta tekið húsið í notkun í byrjun mars því honum vantar pláss undir ræktunina.

„Er maður nokkuð brattur, er ekki einmitt rétti tíminn núna til að byggja, ég held það. Það er mikið spurt um pottaplöntur og mikill áhugi á þeim, þannig að ég vil bara veita Íslendingum þessa þjónustu,“ segir Birgir.

Mikil ánægja er hjá bæjarbúum í Hveragerði að Birgir skildi ráðast í byggingu á gróðurhúsinu á sama tíma og verktakar hafa verið að kaupa gróðurhúsalóðir, rifið þau og byggt íbúðarhúsnæði, því fólk vill hafa gróðurhús í blóma og garðyrkjubænum Hveragerði.

„Já, ég held að bæjarbúar séu almennt ánægðir með að það skyldi allavega koma eitt gróðurhús á þessum tíma hérna í Hveragerði. Ég hef reyndar ekki spurt þá alla, það búa hérna 2.600 manns, ég ég held það,“ segir Birgir.

“Biggi bratti” ræktar pottaplöntur með góðum árangri í Hveragerði. Með nýja húsinu verður hann með um tvö þúsund fermetra undir gleri.

Heimild: Visir.is