Vaðlaheiðargöng voru opnuð klukkan 18 á föstudagskvöld og fyrsta sólarhringinn fóru hátt í þrjú þúsund ökutæki þar í gegn, samtals báðar leiðir. Valgeir segir óhætt að segja að aðsóknin hafi farið vel að stað.
„Það var þrefalt miðað við það sem er vanalega. En þetta er svo sem eins og maður kannski bjóst við. Við erum mjög ánægð með þetta en þetta eru væntanlega ekki þær tölur sem verða á þessum tíma, heldur nokkuð mikið umferð sem er að fara fram og til baka og skoða. Þannig að þetta er jú, svona langt fram úr því sem eðlilegt er.“
Valgeir segir að nýjustu tölur sýni að 962 ökutæki hafi farið göngin, samtals fram og til baka, frá miðnætti og til klukkan þrjú í dag. Tölurnar komi úr gjaldtökumyndavélum ganganna og séu ekki nákvæmar. Teljari verði settur upp í janúar.
Ekki virðast allir hafa gert sér grein fyrir því að búið er að opna göngin fyrir umferð því rúmlega hundrað ökutæki fóru yfir Víkurskarð fyrsta sólarhringinn eftir að göngin voru opnuð.
„Þannig að það eru alltaf einhverjir sem vita ekki að göngin hafa verið opnuð og farið Víkurskarðið af vana,“ segir Valgeir.
Gjaldtaka hefst í göngin 2.janúar. Valgeir segist ekki eiga von á öðru en að fólk haldi áfram að fara göngin þegar það hefur uppgötvað þægindin og öryggið.
„Maður sér á kommentafærslum hjá íbúum og þeim sem hafa prófað göngin að það eru allir mjög sáttir við þetta og allir að óska öllum til hamingju og mörg komment eru á þá leið að þeir séu búnir að keyra sína síðustu ferð um Víkurskarðið.“