Home Fréttir Í fréttum Full sátt um að taka lán og rukka svo veggjöld

Full sátt um að taka lán og rukka svo veggjöld

117
0
Mynd: Ruv.is
Full sátt er um það innan ríkisstjórnarflokkanna, að taka lán fyrir nauðsynlegum vegaframkvæmdum og greiða svo af láninu með innheimtu vegtolla. Þetta segir Jón Gunnarsson, fyrsti varaformaður samgöngunefndar og fyrrverandi samgönguráðherra. Hann segir þessa leið nauðsynlega til þess að draga úr slysatíðni og bæta samgöngur.

Vegagerðin tekur rúmlega sextíu milljarða lán fyrir nauðsynlegum vegaframkvæmdum, samkvæmt hugmyndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, sem sagt var frá í fréttum í gær.

<>

Innheimta vegtolla hefst svo að framkvæmdum loknum, árið 2024, og verður það fé nýtt til að greiða niður lánið. Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra og fyrsti varaformaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, telur það góða hugmynd að taka lán og greiða svo af því með vegtollum.

„Jú það er það sem þessi hugmynd gengur út á þannig að þetta er alveg í samræmi við það sem nefndin hefur verið að leggja út frá í sinni vinnu við samgönguáætlun. Þannig að mér líst bara vel á það.

Ég held að þetta sé okkur nauðsynlegt til þess að ná stórstigum framkvæmdum, draga úr slysatíðni og bæta samgöngumál,“ segir Jón.

Er full sátt um þessa leið innan ríkisstjórnarflokkanna?

„Já ég verð ekki var við annað en að það sé mjög góð sátt innandyra hjá okkur.“

Starfshópur Sigurðar Inga um fjármögnun samgöngukerfisins hefur verið að störfum um nokkurt skeið og eiga niðurstöður hans að liggja fyrir um miðjan janúar. Hópurinn á að leggja til hvernig gjaldtöku og vegtollum verði háttað.

„Umhverfis- og samgöngunefnd mun koma saman um miðjan janúar á nefndadögum og taka nánari umfjöllun um afgreiðslu samgönguáætlunar og svo er markmiðið að ljúka afgreiðslu hennar úr þinginu fyrir lok janúar,“ segir Jón.

Heimild: Ruv.is