Home Fréttir Í fréttum Binda vonir við innflutt og raðsmíðuð hús

Binda vonir við innflutt og raðsmíðuð hús

169
0
Mynd: Ruv.is
Norðurþing er eitt af sjö sveitarfélögum sem gert hafa samning við ríkið í gegnum Íbúðalánasjóð um að taka þátt í tilraunaverkefni í húsnæðismálum.
Áætlað er að reisa innflutt og raðsmíðað húsnæði á Húsavík og víðar í sveitarfélaginu. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi, segir að húsnæðisvandinn víða á landsbyggðinni sé djúpstæður en vonar að í krafti þessarar aðstoðar geti sveitarfélagið boðið upp á samkeppnishæft umhverfi fyrir fjölskyldur landsins.

Kristján Þór var gestur á Morgunvaktinni og sagði þar að ærið verkefni væri framundan. Hann sér fyrir sér að á næstu fjórum árum þurfi um 40 til 50 íbúðir inn á markaðinn til að mæta núverandi þörf fyrirsjáanlegri þörf með áframhaldandi jákvæðum takti í atvinnulífinu.

<>

Sitja eftir með sérstaka stöðu

„Við erum auðvitað á þeim stað í kúrfunni að við erum búin að toppa í þeirri uppbyggingu atvinnulífsins sem hefur átt sér stað núna mjög kröftuglega á síðustu tveimur árum.

Í undirbúningi að því horfðum við til annarra staða sem hafa upplifað slíka uppbyggingu og veltum fyrir okkur því sem við væntum samfara í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.” Miðað við reynslu annars staðar hafi fólk búið sig undir ákveðinn hasar í húsnæðismálunum samfara uppbyggingu á Bakka.

„Það hins vegar bara gerðist ekki. Það er allt önnur staða. Það er erfiðara að nálgast það ódýra fjármagn sem virtist alls staðar í boði fyrir hrun þannig að við lentum í akkúrat hinum endanum á rófinu; það var enginn áhugi á að byggja upp íbúðarhúsnæði á sama tíma og uppbygging verksmiðjunnar var í gangi. Það kostaði mikil vandræði.

” Ástæðurnar séu margvíslegar. „Markaður verktaka er smár á svæðinu, það er búið að byggja töluvert hérna á Akureyri, og þá eru önnur verkefni framar í forgangsröðinni. Það er bara meiri áhætta fyrir verktakana. Eftir sitjum við með svolítið sérstaka stöðu.

Það er rosalega mikill þrýstingur á markaðinn, fasteignamatið búið að hækka í sveitarfélaginu hjá okkur um hátt í 73% á tveimur árum.

Það er aðeins búið að byggja en það þarf sannarlega meira til svo það verði eðlileg þróun og við stöndum ekki áfram frammi fyrir því að þetta sé raunveruleg hindrun í því að atvinnulífið nái að blómstra fyllilega.”

Kristján Þór segir íbúafjöldann hafa aukist og vonar að það haldist. „En það vantar sannarlega fleiri búsetuúrræði og þess vegna ákváðum við að sækja um í þetta verkefni.

Við höfum verið að ræða við marga aðila, þar á meðal Búfesti, félagið sem hefur hug á að byggja leiguíbúðir eða búseturéttaríbúðir í samstarfi við öfluga aðila, mögulega erlendis frá. Við höfum verið að kynna okkur leiðir sem farnar eru þar í raðsmíði húsa, sem við erum farin að þekkja aðeins hér á landi.

Menn eru farnir að kaupa framleiðslu frá Skandinavíu, Eistlandi, Litháen, löndum þar sem hægt er að ná fram mun meiri hagkvæmni en við höfum áður séð hér á Íslandi, með því að nota sömu mótin og byggja úr efnum sem ættu að henta hér ekki síður en í Skandinavíu.

Við viljum, á Húsavík og vonandi fleiri stöðum í sveitarfélaginu geta boðið upp á hagkvæmara húsnæði í krafti þess að nýta lausnir sem eru nýttar annars staðar og ná fram hagkvæmni í krafti einhvers massa af íbúðum.

Ég finn ekki annað en það sé raunverulegur vilji hjá ríkisvaldinu til að styðja við sveitarfélög og reyna að finna lausnir sem verða þess valdandi að þetta verði ekki svona ofboðslegur þröskuldur fyrir íbúaþróun.”

Djúpstæður vandi

Kristján Þór segir vandann þó djúpstæðan og víða á landinu. „Hann verður alltaf þar sem eftirspurnin er í langan tíma ekki viðvarandi.” Þá bætist við að ferðaþjónustan hafi verið að blómstra en aðeins brot úr árinu og það hafi mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn.

„Það er mjög mikil eftirspurn ferðamanna eftir húsnæði sem er þá leigt tímabundið og leigumarkaðurinn tekur mið af því. Hann er rosalega erfiður og það er almennt á landinu að leigumarkaðurinn er ekki þroskaður miðað við mörg önnur lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Það hefur verið þannig um langa hríð að mikið af íbúðarhúsnæði hefur verið í skammtímaleigu og það er auðvitað gott að mjög mörgu leyti en hefur þessa neikvæðu hlið líka. það getur teppt fyrir hraðari íbúavexti ef svo má segja.

En vonandi náum við takti núna, bæði í krafti umræðunnar og þess ásetnings ríkisvaldsins að aðstoða okkur við þetta þannig að íbúaþróun víða um land geti tekið þeim eðlilegu og jákvæðu breytingum sem ég held að verði að vera.”

Heimild: Ruv.is