Home Fréttir Í fréttum Sigurði gert að greiða 137 milljóna sekt

Sigurði gert að greiða 137 milljóna sekt

322
0
Sigurður Ragnar Kristinsson Mynd: Vísir/vilhelm

Sigurður Ragnar Kristinsson var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar skattalagabrot í rekstri verkatakafyrirtækisins SS verks ehf. Þá var honum einnig gert að greiða 137 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs sem skal greiðast innan fjögurra vikna. Ellegar skal hann sæta fangelsisvist í 360 daga.

<>

Sigurði var gefið að sök að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum í störfum sínum fyrir SS Verk. Það átti hann að hafa gert með því að hafa oftalið innskatt um tæpar 34 milljónir króna á grundvelli fimm tilhæfulausra sölureikninga, gerða út á fyrirtækið TG smíðar sem nú er gjaldþrota. Auk þess var Sigurður talinn hafa vanframtalið virðisauka SS verks ehf. um tæpar þrjátíu milljónir króna.

Sjá einnig: „Þessi verk voru unnin“

Við aðalmeðferð málsins um miðjan nóvember, sem Vísir fjallaði um á sínum tíma, þvertók Sigurður fyrir að þessir reikningar hefðu verið tilhæfulausir.

Þá var Sigurður einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á rúmum 15 milljónum króna í staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna SS verks. Sigurður hafði játað sök í þeim þætti málsins.

Hann mætti ekki við dómsuppkvaðninguna í morgun en Hilmar Magnússon, verjandi hans, var viðstaddur. Dómari málsins féllst ekki á frávísunarkröfu Sigurðar heldur dæmdi hann til 20 mánaða, skilorðsbundinnar fangelsisvistar.

Auk þess að greiða fyrrnefndar 137 milljónir til ríkissjóðs var honum gert að greiða verjanda sínum tæpar 2,4 milljónir í þóknun.

Heimild: Visir.is