Home Fréttir Í fréttum Gamli hafnargarðurinn orðinn veggklæðning

Gamli hafnargarðurinn orðinn veggklæðning

275
0
Grjót úr eldri hafnargarðinum öðlast nýtt líf sem veggklæðning í anddyri Kalkofnsvegar 2, einnar nýbyggingarinnar við Hafnartorg. Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Minning hafnargarðanna, sem grafnir voru upp og fjarlægðir stein fyrir stein við Hafnar­torg fyrir nokkrum árum, verður heiðruð í byggingunum sem þar hafa nú risið. Samkomulag náðist milli framkvæmdaaðila og Minjastofnunar um að gera minjunum þar hátt undir höfði.

<>

Í því felst meðal annars að grjóti úr eldri garðinum hefur verið breytt í veggflísar sem nú er verið að klæða anddyri einnar byggingarinnar við Hafnartorg með.

Yngri garðurinn, sem friðlýstur var að undirlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, verður sýnilegur í bílakjallara hússins.

Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks sem reisir húsin við Hafnartorg, segir þetta nokkuð snjalla lausn.

„Þetta er hluti af hönnun hússins og lausninni varðandi garðinn sem unnin var í samvinnu við Minjastofnun,“ segir Þorvaldur.

Mikið fár varð í kringum uppgröftinn í gömlu höfninni. Tafir urðu á framkvæmdum, Sigmundur Davíð þurfti að segja sig frá ákvörðun um friðlýsingu og svo fór að Sigrún Magnúsdóttir tók ákvörðunina um friðlýsingu. Grjótið úr hafnargarðinum var svo fjarlægt stein fyrir stein, merkt og mælt í bak og fyrir en kostnaður við það nam hálfum milljarði.

Friðlýsti hafnargarðurinn mun njóta sín í bílakjallara. Fréttablaðið/GVA

Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, bendir á að um tvo hafnargarða hafi verið að ræða. Annars vegar var það stóri hafnargarðurinn sem lá þvert yfir lóðina sem mesta fjargviðrið varð út af og var friðlýstur sérstaklega. Og síðan eldri hafnargarður, sem var innar, einnig kallaður bólverk sem heimildir eru til um frá 1881. Sá er aldursfriðaður. Bólverkið var vel varðveitt undir landfyllingu, grjóthleðslan er öll úr tilhöggnu grjóti, ólíkt yngri hafnargarðinum.

Grjót úr eldri hafnargarðinum hefur nú verið sagað í flísar og notað sem veggklæðning í anddyri Kalkofnsvegar 2 á Hafnartorgi, þar sem skrifstofur Fréttablaðsins eru til húsa og glöggur blaðamaður bar kennsl á grjótið.

„Samkomulagið var að sá garður yrði ekki settur aftur upp á sinn stað heldur nýttur í svona vegg. Þannig að minningin um hann yrði varðveitt í húsinu,“ segir Agnes.

Samþykkt var að hinn garðurinn sem friðlýstur var yrði tekinn niður, í stað þess að byggja hann upp og gera bílakjallarann ónothæfan.

„Það verða steinar úr honum settir í gólfið og einhver hluti af honum hlaðinn upp þar sem því verður komið við.“

Heimild: Visir.is