Home Fréttir Í fréttum Tekur 40 ár að fullklára stórskipahöfn í Finnafirði

Tekur 40 ár að fullklára stórskipahöfn í Finnafirði

351
0
Mynd: Bremenports

Gengið verður frá samkomulagi um stofnun tveggja hlutafélaga sem gegna lykilhlutverki við uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði fyrir árslok. Talsmenn þýska fyrirtækisins Bremenports segja um langtímaverkefni með víðtækri uppbyggingu að ræða.

<>

Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports fjallaði um vinnuna á ráðstefnunni Arctic Circle í Reykjavík í lok október. Í tengslum við hana var fundað með fulltrúum íslenska ríkisins og samstarfsaðila. Auk Bremenports eru sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur og verkfræðistofan EFLA aðilar að vinnunni.

Í tilkynningu frá Bremenports er greint frá þeim tímaramma sem samstarfsaðilarnir vinna um þessar mundir. Fyrir áramót ætti að liggja fyrir samkomulag um stofnun hlutafélaganna tveggja, annars vegar þróunarfélags, hins vegar hafnarsamlags. Á næsta stigi komi svo inn fjárfestir með fjármagn til frekari skipulagsvinnu.

Tækifæri til að efla veikt svæði

Fylkisstjórn Bremen samþykkti fyrir sitt leiti þátttöku í stofnun fyrirtækjanna í fyrra. „Hafnarverkefnið á Íslandi felur í sér þróun sem örugglega mun taka nokkra áratugi. Það skapar grundvöll fyrir sjálfbærri þróun á norðurslóðun og eykur öryggi á nýjum siglingaslóðum.

Að auki felur verkefnið í sér stórkostleg tækifæri til efla svæði með veika innviði. Það er heiður að Íslendingar hafi óskað eftir að Bremenport leiddu verkefnið,“ er haft eftir Martin Günther sem fer með efnahags-, vinnu- og hafnarmál í fylkisstjórninni.

Vetnisframleiðsla í Finnafirði?

Í tilkynningu Bremenports farið yfir umfang verkefnisins og aðstæður á norðausturhorninu. Þar segir að aðstaða sé fyrir rúmlega sex kílómetra langan hafnarbakka og 1200 hektara athafnasvæði. Svæðið er sagt að mestu ónotað og aðstæður til byggingar hafnar séu frábærar.

Fjörðurinn sé um 20 metra djúpur, öldur lágar á þessu landssvæði auk þess sem Langanesið skýli firðinum. Ólíkt flestum svæðum við Norðurskautið sé mikið undirlendi í firðinum.

Aðstæður séu til að nálgast orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir hafnarstarfsemina og byggja hana að mestu með hráefnum úr nágrenninu. Í tilkynningu Bremenports kemur fram að samkomulag hafi náðst við landeigendur sem leggi réttindi sín inn í sjóð sem síðar muni greiða þeim leigu.

Bent er á að samfélögin í nágrenninu byggi á sjávárútvegi sem loftslagsbreytingar setji í óvissu. Sveitarfélögin hafi því hag af því að byggja upp nýja atvinnuvegi.

Þessar sömu loftlagsbreytingar geta leitt til nýrra siglingaleiða um Norðurskautið, til dæmis verði fært þá leiðina milli Asíu og Bandaríkjanna árið um kring styttist siglingaleiðin um meira en tíu daga.

Í þessu samhengi sé Finnafjörður kjörinn staður fyrir umskipunarhöfn. Með aukinni skipaumferð sé einnig þörf á björgunarhöfn. Til skoðunar er að koma upp vetnisframleiðslu á staðnum til að knýja fley framtíðarinnar.

Nauðsynlegt að huga að sjálfbærni við uppbygginguna

Talsmenn Bremenports hafa lagt nokkra áherslu á umhverfisvernd og sjálfbæraþróun á norðurslóðum í tengslum við verkefnið.

Bremenports var meðal 80 fyrirtækja og samtaka sem í vor undirrituðu samkomulag um bann við notkun á svartolíu í norðurslóðasiglingum.

„Loftslagsbreytingar munu leiða til efnahagsþróunar á þessu svæði. Það skiptir alla heimsbyggðina að sú þróun byggi á eins ströngum skilyrðum um sjálfbærni og mögulegt er. Það skiptir bæði okkur og íslenska samstarfsaðila okkar öllu máli að við skipulag hafnar í Finnafirði sé vistfræðilegum viðmiðum fylgt til hins ýtrasta á öllum stigum,“ er haft eftir Robert Howe, framkvæmdastjóra Bremenports. Hann segir það einnig áskorun og heiður fyrir Bremenports að taka þátt í verkefni þar sem sjálfbærni skiptir svo miklu máli.

Víðtæk innviðauppbyging

Í tilkynningunni segir að ætla þurfi nægan tíma í verkefnið. Eftir að lokið verði við skipulag og hönnun verði veitt sérleyfi fyrir starfsemi í höfninni. Frekari framkvæmdakostnaður verði alfarði greiddur af sérleyfishöfum.

Að auki sé þörf á að byggja upp innviði: vegi, orkukerfi, vatnskerfi og símkerfi. Þar verði Bremenports í sambandi við samgönguráðuneytið. Allt í allt sé reiknað með að það taki 40 ár að fullklára Finnafjarðarverkefnið. Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra samgöngumála, að Finnafjarðarverkefnið sé stórverkefni í íslenskri innviðauppbyggingu og þróun á norðurslóðum. Hann leggi einnig áherslu á gott samstarf við Bremenports.

Þessa dagana er verið að ganga frá samningsdrögum fyrir framkvæmdastjórnir samningsaðila og er stefnt að undirritun þeirra fyrir árslok. Í tilkynningu segir að hún sé alfarið innan þeirra skilyrða sem fylkisstjórnin hafi sett. Næsta skref sé síðan að semja við fjárfestinn.

„Það þarf vart að taka það fram að verkefni sem þetta gengur ekki upp nema allir samstarfsaðilar séu með skýrt samkomulag um helstu þætti. Þeir samningar sem nú liggja fyrir drög að tryggja það,“ segir Howe, framkvæmdastjóri Bremenports.

Heimild: Austurfrett.is