Home Fréttir Í fréttum Fjarðanet byggir stóra netagerð í Neskaupstað

Fjarðanet byggir stóra netagerð í Neskaupstað

182
0
Mynd: Ruv.is
Netaverkstæðið í Neskaupstað er orðið of lítið fyrir nútíma veiðarfæri sem hafa stækkað á undanförnum árum. Þar hnoðast starfsmenn með loðnunætur í fullri stærð og verða fegnir þegar ný og stærri netagerð kemst í gagnið.

Á verkstæði Fjarðanets í Neskaupstað er nóg að gera við að laga veiðarfæri, ekki síst fyrir uppsjávarskipin sem veiða loðnu, síld, makríl og kolmunna.

<>

Plássið er ekki of mikið, nót getur verið 6-700 metra löng og ekki furða þótt stundum þurfi að spóla fyrir horn. Húsið var byggt á árunum 1964 til 66 og margt hefur breyst á hálfri öld.

„Þetta var stórhuga framkvæmd og stór og mikil bygging á þeim tíma. En svo hafa hlutirnir þróast og skipin stækka mikið síðustu árin.

Þannig hafa veiðarfæri stækkað, næturnar eru stærri og sterkari. Þannig að það er notað sverara efni sem gerir það að verkum að þær verða þyngri og taka meira pláss og þyngra að vinna með þær,“ segir Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets í Neskaupstað.

Nýja húsið er byggt á landfyllingu og er engin smásmíði. Það er 85 metra langt, næstum þrefalt lengra en gamla húsið og gólfflöturinn 2.200 fermetrar.

Svo munar líka miklu um lofthæðina. Á gamla staðnum þarf að draga nótina milli hæða og blakkirnar í vinnusalnum eru nánast niðri við gólf.

Í nýja húsinu verður allt á einni hæð. „Það er mun einfaldara að vinna með og spóla með næturnar þegar blakkirnar hanga í meiri hæð. Í nýja húsinu verða þær í 8 eða 9 metra hæð sem gerir alla vinnu miklu einfaldari.

Vinnusvæðið líka lengist, þú vinnur á lengra svæði á gólfinu þannig að þú þarft að forfæra og spóla sjaldnar heldur en í dag. Stærsta breytingin er kannski nótageymslan, að nú verða allar næturnar geymdar innanhúss sem í dag eru geymdar við hliðina á húsinu,“ segir Jón Einar.

Segja má að þetta muni breyta talsvert ásýnd bæjarins en netagerðin og fjallstórar næturnar þar fyrir utan hafa sett mark sitt á Neskaupstað. Framkvæmdum við nýja netaverkstæðið á að ljúka í mars á næsta ári.

Heimild: Ruv.is