Home Fréttir Í fréttum Ætlar að reisa skandinavísk hús fyrir ungt fólk í Gufunesi

Ætlar að reisa skandinavísk hús fyrir ungt fólk í Gufunesi

391
0
Myndin í efra vinstra horninu er mögulegt útlit þeirra húsa sem horft er til hér á landi. Mynd/Hoffell/Já.is

Myndin í efra vinstra horninu er mögulegt útlit þeirra húsa sem horft er til hér á landi. Mynd/Hoffell/Já.is

<>

Vonir standa til þess að hægt verði að byggja um 80-100 íbúðir að skandinavískri fyrirmynd í Gufunesi á lóð sem er hluti af verkefninu Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Borgin leggur fram þróunarreiti á sjö stöðum í verkefnið þar sem byggja mætti um 500 íbúðir. Alls voru níu teymi valin til þess að fara í viðræður við borgina um uppbyggingu á reitunum og er byggingarfélagið Hoffell eitt af þeim. Lóðin sem reiknað er með að félagið fái er önnur tveggja í Gufunesi en á hinni lóðinni er gert ráð fyrir að félag sem nefnist Þorpið muni reisa um 120 litlar íbúðir.

„Við erum með byggingarkerfi frá Skandinavíu sem er timburburðarvirki. þetta er mjög vinsælt kerfi í Skandinavíu. Allt byggingarefni kemur forsniðið og merkt í gámi þegar það kemur til landsins. Það þarf ekkert að saga og mæla. Þetta er bara sett upp samkvæmt teikningum,“ segir Júlíus Þór Júlíusson, forsvarsmaður Hoffells í samtali við Vísi um húsin sem félagið hefur í huga fyrir reitinn í Gufunesi.

Auk Hoffells koma Teiknistofa arkitekta Gylfi Guðjónsson og félagar ehf., Efla verkfræðistofa og norska arkitektastofan Urbanhus að verkefninu.

Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu í Gufunesi á næstu árum þar sem gert er ráð fyrir kvikmyndaþorpi og tölvuverðri uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.

Júlíus Þór Júlíusson, forsvarsmaður Hoffells.Mynd/Hoffell

Tímabært að horfa á eitthvað annað en bara steypu

Júlíus segir að tímabært sé að fara að horfa til annarra lausna en hinnar hefðbundnu steypu þegar kemur að því að byggja hús hér á landi. Gott sé að horfa til Skandinavíu í þeim efnum þar sem fjölbreyttar byggingarlausnir séu við lýði.

Reiknað er með að húsin á þeirri lóð sem um ræðir verði ýmist þriggja eða fjögurra hæða og að meðalstærð íbúða verði 60-70 fermetrar. Íbúðirnar verða eins til þriggja herbergja en einnig er gert ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika innan íbúðanna.

„Við reynum að hanna íbúðirnar þannig að þú getur breytt aðeins skipulagi,“ segir Júlíus. Þannig verði hægt að fjölga eða fækka veggjum til þess að búa til eða sameina herbergi. Þetta geri það að verkum að íbúar ættu að geta búið í hverri íbúð í lengri tíma hverju sinni.

„Þetta kemur ekki niður á gæðum. Í mínu tilfelli þá eru Skandinavar mjög kröfuharðir kúnnar og vilja nútímaleg hús og íbúðir og eru með ákveðnar kröfur,“ segir Júlíus sem leggur áherslu á að innréttingar verði bæði nútímalegar og hagkvæmar.

Lóðin sem Hoffell gerir ráð fyrir að byggja á er merkt B 1.4.

Íbúðirnar ýmist seldar til einstaklinga eða leigufélaga

Markhópurinn er sem fyrr segir ungt fólk en markmið Hoffells er að íbúðirnar verði seldar til einstaklinga eða til leigufélaga sem leigi íbúðirnar. Júlíus Þór hefur trú á því að kaupverð íbúðanna eða leiguverðið sem leigufélögin sem muni hugsanlega kaupa íbúðirnar veðri vel viðráðanlegt fyrir ungt fólk.

Það helgist meðal annars af því að borgin mun úthluta lóðunum á föstu verði, 45 þúsund krónur á fermetrann ofanjarðar auk gatnagerðargjalda.

„Ég hef á tilfinningu að innkaupsverðið sem verði á íbúðunum muni hjálpa til við að halda verðinu niðri. Ef þú ert með lágt innkaupsverð þá færðu út lægri leigu,“ segir Júlíus sem telur að þetta verkefni sé mjög þarft.

„Ég held að það sé byrjun á breytingum á fasteignamarkaðinum,“ segir Júlíus. „Það gefur öðrum tækifæri sem telja sig vera með hagkvæmar lausnir og nýta þær til að byggja upp hagkvæmt húsnæði.“

Dæmi um eitt af þeim húsum sem Hoffell hyggst reisa en endanleg hönnunarvinna liggur ekki fyrir.Mynd/Hoffell

Innan við eitt ár að klára eitt hús

Hoffell er nú í viðræðum við borgina um lóðavilyrði á lóðinni en samningar þurfa að nást áður en að framkvæmdir geta hafist. Júlíus reiknar þó ekki með öðru en að samningar náist en á vef borgarinnar segir að lögð sé áhersla á að verkefnin gangi hratt og vel fyrir sig.

Júlíus segir að viðræðum loknum fari hönnunarferli af stað. Þegar því sé lokið megi reikna með að hægt sé að byggja eitt af þeim húsum sem á að reisa á innan við ári en að heildarframkvæmdartími verði um tvö ár.

Kynningu Júlíusar á verkefninu má sjá hér að neðan. Kynningin hefst þegar um 25 mínútur eru liðnar af myndbandinu.