Home Fréttir Í fréttum Deilan vegna vinnu við uppsetningu á stólalyftu í Hlíðarfjalli leyst

Deilan vegna vinnu við uppsetningu á stólalyftu í Hlíðarfjalli leyst

263
0
Mynd: Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Náðst hefur samkomulag í deilu sem upp kom í sumar vegna vinnu við uppsetningu á stólalyftu í Hlíðarfjalli.
Eins og fram hefur komið var verkið stöðvað í kjölfar ágreinings milli Stólalyftu ehf., félagsins sem stendur að uppsetningu lyftunnar, og verktakans G. Hjálmarssonar.

Nú hefur verið gert þríhliða samkomulag um uppgjör og verklok vegna jarðvinnu við uppsetningu lyftunnar.

<>

Samkomulagið er milli Stólalyftu ehf., G. Hjálmarssonar hf. og Akureyrarbæjar.

Í samtali við RÚV fyrr í mánuðinum sagðist Guðmundur Hjálmarsson verktaki hafa boðið afslátt svo höggva megi á hnútinn.

Geir Gíslason, stjórnarformaður Stólalyftu ehf., segir að félagið hafi nú gert upp skuldina við G. Hjálmarsson.

Greiðslan hafi verið heldur hærri en gert hafi verið ráð fyrir í áætlunum. Mikilvægst sé þó að þetta samkomulag sé í höfn.

Hlutur Akureyrarbæjar er greiðsla fyrir vinnu utan lyftustæðisins sem verktakinn vann um leið og vinnuna fyrir Stólalyftu ehf.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarsjtórnar Akureyrarbæjar, segir það verk hafa verið unnið samkvæmt beiðni frá bænum og það sé því bæjarins að greiða fyrir það.

Þessi deila varð til þess að stólalyftan, sem kom til landsins í vor, kemst ekki í gagnið í vetur eins og til stóð. Ekkert verður unnið frekar við uppsetninguna fyrr en næsta sumar.

Heimild:  Ruv.is