Home Fréttir Í fréttum Skoða byggingu lúxushótels á Grenivík

Skoða byggingu lúxushótels á Grenivík

218
0
Mynd: Vb.is /Haraldur Guðjónsson

Erlendir fjárfestar skoða byggingu lúxushótels á Grenivík. Áhersla yrði lögð á ýmsa útivist og afþreyingu á borð við þyrluskíðaferðir.

<>

Erlendir fjárfestar hafa nú til skoðunar bygg­ingu lúxushótels á Þengil­höfða, sunnan við Grenivík.

Forsvarsmenn verkefnis­ins hafa fundað með sveitarstjórnarfólki í Grýtubakkahreppi á undanförnum vikum vegna málsins.

Á hótelinu er stefnt á að bjóða upp á afþreyingartengda ferðamennsku, þar með talið þyrluskíðaferð­ir.

Íslenska félagið Viking Heliskiing ehf. vinnur að verkefninu með erlenda félaginu NIHI hótels. Björgvin Björgvinsson, annar stofnenda Viking Heliskiing, segir verkefnið komið afar skammt á veg. „Þetta er á algjörlegu byrjunarstigi,“ segir Björgvin en það gæti skýrst betur á næstu vikum.

Forstjóri NIHI er hinn suðurafríski James McBride, sem hefur verið áberandi í hótelrekstri víða um heim undanfarna áratugi.

Í nýlegu viðtali á ráðstefnunni Skift Global Forum 2018 nefndi McBride að Ísland væri einn þeirra staða þar sem hann væri að skoða mögulega uppbyggingu.

„Ég hef mikinn áhuga á Íslandi. Ég hef farið þangað tvisvar eða þrisvar, í þyrluskíðaferðir og laxveiði. Mér finnst Ísland heillandi staður,“ sagði McBride.

NIHI hotel reka í dag hótel á eyjunni Sumba í Indónesíu sem ferðavefurinn Travel+Leisure valdi það besta í heimi árin 2016 og 2017.

Vinna málið í rólegheitum

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, segir málið afar skammt á veg komið og ekkert sé fast í hendi. „Við erum bara búin að vera að vinna að þessu í rólegheitum og höldum því áfram,“ segir Þröstur.

Grýtubakkahreppur auglýsti í vor eftir samstarfsaðilum um afnot af landi hreppsins til þyrluskíðamennsku eftir árið 2021.

Félagið Bergmenn ehf. hefur einkarétt á þyrluskíðaferðum í landi sveitarfélagsins fram til þess tíma. Bergmenn og Heliskiing óskuðu bæði eftir samstarfi og sendu inn hugmyndir að uppbyggingu í vor.

Sveitarstjórnin taldi hvor­ugt fyrirtækið hafa skilað inn tillögum sem væru fullnægjandi.

Í kjölfarið hafi nýir aðilar komið að verkefninu.

Í lok september samþykkti sveitarstjórn Grýtubakkahrepps svo að innleysa land á norðvestanverðum Þengilhöfða úr erfðafestuleigu og fól sveitarstjóra að ganga til samninga við leiguhafa á Þengilhöfða.

Þröstur segir að verið sé að gera breytingar á aðalskipulagi sem snúi aðallega að breyttri landnotkun, einkum vegna uppbyggingarmöguleika í ferðaþjónustu.

Heimild: Vb.is