Home Fréttir Í fréttum Samfélagslegur kostnaður vegna myglu í húsnæði 10 milljarðar á ári

Samfélagslegur kostnaður vegna myglu í húsnæði 10 milljarðar á ári

198
0
Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Samfélagslegur kostnaður vegna myglu í húsnæðum nemur um tíu milljörðum króna á hverju ári. Prófessor segir átak þurfa til þess að þjóðin átti sig á þeim skaða sem myglan veldur.

<>

Mygluskaðar í húsum hafa reglulega verið til umfjöllunar í fjölmiðlum en stærstu tilfellin hafa verið í Orkuveituhúsinu, byggingum Landspítalans og í fyrrum húsakynnum Velferðarráðuneytisins í Hafnarhúsinu svo ekki séu nefnd tilfellin sem hafa átt sér stað í híbýlum einstaklinga og fjölskyldna.

Tilkynningum vegna myglu í húsnæði hefur fjölgað mikið á síðustu árum enda fólk meðvitaðra um vandamálið.

Á málþingi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í dag kom fram að samfélagslegur kostnaður vegna myglunnar sé farinn að hlaupa á milljörðum.

Ólafur H. Wallevik, prófessor við HR og forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

„Af stærðargráðunni getum við sagt að það er svona sirka átta til tíu milljarðar á ári, svo þetta er verulegur samfélagslegur baggi,“ sagði Ólafur H. Wallevik, prófessor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en hann hélt erindi á málþinginu í dag.

Kostnaðurinn skiptist í fjóra þætti. Ólafur segir að tveir til þrír milljarðar liggi í hreinum vatnsskaða, vinnutap einstaklinga vegna myglu hleypur á tveimur milljörðum, og skemmdir vegna myglu sem tryggingafélög greiða ekki hleypur á þremur milljörðum.

Erfiðast reynst að reikna úr heilsutjón sem verður að völdum myglu.

„Veikindi er erfiðast að meta og þá notum við tölur sem koma erlendis frá, þannig að við ætlum að segja mjög grófa tölu. Þetta getur allt verið frá tveimur milljörðum til fimm milljarðar á ári,” segir Ólafur.

Ólafur segir að leggja verði áherslu á að minnka rakaskemmdir í byggingum til að lágmarka tjón.

Hann segir að Nýsköpunarmiðstöð Íslands, ásamt öðrum fagaðilum vinni að því að því að safna rannsóknarfé til þess að vinna úr fimmtán kenningum um myglu og að fyrirhugað sé átak til vekja fólk til vitundar.

„Við erum að sjá þetta í nýbyggingum og í rauninni má segja að við séum að búa til nýtt vandamál á hverjum degi þegar við erum að byggja hús, þannig að það er að ýmsu að taka og við erum að fara í átak til þess að koma í veg fyrir og fyrirbyggja þennan vanda að einhverju leiti,“ segir Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og fagstjóri hjá Eflu, verkfræðistofu og ráðgjafi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

„Ef við náum fimmtíu prósent árangri og minnkum segjum frá tíu milljörðum niður í fimm milljarða á ári, með vissu átaki, þá gætum við byggt að stærðargráðunni hundrað íbúðir aukalega á ári fyrir þennan pening. Yrði það ekki stórkostlegt,“ segir Ólafur

Heimild: Visir.is