Á laugardag var nýtt þjónustuhús fyrir mjólkursöfnun í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum tekið formlega í notkun að Hnjúkabyggð 34 á Blönduósi.
Ámundakinn á húsið og sá um byggingu þess en það er um 560 fermetrar að grunnfleti, með rúmlega fimm metra lofhæð og byggt á háum steyptum sökkli.
Með tilkomu hússins gjörbreytist vinnuaðstaða mjólkurbílstjóra til hins betra en í því eru tvö rúmgóð búningsherbergi með baði, kaffistofa, skrifstofa og tvö hvíldarherbergi með baði, auk geymslulofts.
Framkvæmdakostnaður nam um 190 milljónir króna og er Mjólkursamsalan leigutaki hússins.
Í febrúar 2017 undirrituðu Ámundakinn, Auðhumla, Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólkursamsalan viljayfirlýsingu um byggingu á nýju þjónustuhúsi og leigu til langs tíma.
Húsið skyldi rúma þrjá til fjóra flutningabíla auk vagna með góðri aðstöðu til að þvo þá inni og geyma. Þá skyldi í því vera tvö aðskilin hvíldarherbergi ætluðum bílstjórum sem sjá um flutninga milli Selfoss og Norðurlands.
Fyrsta skóflustungan var svo tekin að húsinu 23. júní í fyrra.
Um og yfir eitthundrað manns komu að framkvæmd hússins með einhverjum hætti og þakkaði Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, þeim öllum fyrir góð samskipti og gott handverk þegar hann afhenti húsið formlega til Mjólkursamsölunnar með viðhöfn í gær en áhersla var lögð á að semja við verktaka í héraði um verkið.
Landsbankinn á Sauðárkróki fjármagnaði framkvæmdina að fullu að undangengnu útboði.
Heimild: Huni.is