Áætlunin er unnin sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2015 – 2019. Markmiðið með áætluninni er að styrkja flugsamgöngur við Norðurland eystra og benda á að með bættri aðstöðu gæti flugvöllurinn þjónað millilandaflugi og einnig sem varaflugvöllur.
Bæta þarf flugstöð, flughlað og aðflugsbúnað
Þar er bent á að á síðasta ári hafi hluti af flugferðum í leiguflugi til Akureyrar frá Bretlandi fallið niður vegna veðurskilyrða. Líklegt sé að færri ferðir hefðu fallið niður ef öruggari flugleiðsögubúnaður væri á Akureyrarflugvelli en nú er. Horfa þurfi til framtíðar hvað varðar öruggari flugleiðsögn. Þá hafi berlega komið í ljós að núverandi flugstöð geti ekki með góðu móti annað farþegum í millilandaflugi. Einnig sé mjög brýnt að stækka flughlað á vellinum.
Framkvæmdatími við flugstöð um tvö ár
Í skýrslunni kemur fram að uppsetningu á ILS aðflugsbúnaði verður ekki lokið fyrr en á árinu 2019. Samanlagður kostnaður við búnaðinn, jarðvegsfyllingu og undirstöður er um 180 milljónir króna. Mögulegt er að byggja nýja flugstöð og breyta núverandi byggingu fyrir um 1.477 milljónir króna. Byggingartími með breytingum gæti verið að lágmarki um tvö ár. Gróflega áætlaður heildarkostnaður við flughlöð er um 1.610 milljónir og heildartími framkvæmda um þrjú ár.
Skora á ríkisstjórnina og Isavia
Á aðalfundi Eyþings í september var samþykkt ályktun þar sem skýrslu Eflu um uppbyggingu Akureyrarflugvallar er fagnað. Skorað er á ríkisstjórn ásamt ISAVIA að leggja fram áætlun um framtíðaruppbyggingu með hliðsjón af skýrslunni. Með það tvennt að markmiði að opna nýja gátt inn í landið hið fyrsta til að auka ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins og að tryggja varavöll fyrir flugumferð um Keflavíkurflugvöll.
Heimild: Ruv.is