Home Fréttir Í fréttum Kvartanir um slæma meðferð berast vikulega

Kvartanir um slæma meðferð berast vikulega

171
0
Jakub Pilch, ræðismaður Póllands á Íslandi Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ræðismaður Póllands hér á landi gagnrýnir algjört úrræðaleysi þegar pólskt vinnuafl leitar til hans vegna slæmrar meðferðar eða ógreiddra launa. Tvö til þrjú slík mál koma á borð hans í viku hverri. Hann segir sorglegt að sjá hve fá úrræði séu til að taka á vinnumansalsmálum og slæmri meðferð á pólsku starfsfólki.

Umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um vinnumansal og slæma stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hefur vakið mikla athygli. Í þættinum var rætt við fólk sem hafði verið fengið til landsins á fölskum forsendum, verið hlunnfarið og bjó við slæmar aðstæður.

<>

Jakub Pilch, ræðismaður Póllands á Íslandi, segist þekkja þessi mál vel. Þau tengist oftast fólki sem vinni einungis á landinu í nokkrar vikur eða mánuði. „Yfirleitt koma málin upp þegar starfsmaðurinn er á heimleið og á síðustu dögum kemst hún eða hann að því að þeir hafi farið rangt að eða ekki gert eitthvað sem þeir áttu að gera og þá undir þeim formerkjum að vinnuveitandi annað hvort borgi þeim ekki neitt, borgi þeim mjög lítið eða heiti að greiða seinna þegar málin skýrast.“

Hann segir að slíkum málum fari fjölgandi. Hann fái til sín í hverri viku um tvo til þrjá, langoftast karlmenn, sem tilkynni mál og kvarti undan vinnuveitanda. „Þetta eru auðvitað bara nokkrir sem hafa samband. Ég þykist vita að ekki allir sem lenda í vanda hafi samband.“

Jakub segir sárvanta einhvers konar ráðgjöf eða aðstoð frá stéttarfélögum eða stjórnvöldum. Erfitt sé að fá málin í hendurnar og vita ekki hvert eigi að beina fólki. Hann gagnrýnir einnig hve illa Vinnumálastofnun bregðist við þegar mál af þessum toga komi upp. Tvær vikur séu síðan hann óskaði eftir fundi. „Ég fór fram á fund með þeim, ég vildi hitta þá og ræða þessi mál en ég hef enn engin svör fengið.“

Heimild: Ruv.is